Erlent

Litlar líkur á breytingum þegar Rússar ganga að kjör­borðinu

Atli Ísleifsson skrifar
Alls eru fjórtán flokkar í framboði og er búist við að Kómmúnistaflokkurinn, hægri popúlistaflokkurinn LDPR og vinstri þjóðernisflokkurinn Sanngjarnt Rússland munu aftur ná mönnum á þing, auk stjórnarflokksins Sameinaðs Rússlands.
Alls eru fjórtán flokkar í framboði og er búist við að Kómmúnistaflokkurinn, hægri popúlistaflokkurinn LDPR og vinstri þjóðernisflokkurinn Sanngjarnt Rússland munu aftur ná mönnum á þing, auk stjórnarflokksins Sameinaðs Rússlands. EPA

Rússar ganga að kjörborðinu í dag þar sem kosið verður um 450 sæti á rússneska þinginu, Dúmunni. Allar líkur eru á að stjórnarflokkurinn Sameinað Rússland muni þar vinna sigur, þó að flokkurinn hafi aldrei mælst minni í könnunum.

Kosningarnar munu standa næstu þrjá daga og segja stjórnvöld þetta gert til að tryggja sóttvarnir á tímum heimsfaraldursins en stjórnarandstæðingar segja að fyrirkomulagið opni möguleika á kosningasvindli.

Síðustu mánuði hafa stjórnvöld útilokað fjölda stjórnarandstæðinga frá því að bjóða sig fram. Sumir hafa verið dæmdir í fangelsi, aðrir handteknir og þá hefur öðrum einnig verið meinað að bjóða sig fram af ólíkum ástæðum.

Guardian segir frá því að sumum fjölmiðlum, en ekki eru stjórnvöldum þóknanlegir, hafi verið lokað þar sem fullyrt er að erlendir aðilar stýri þeim. Ekki verða neinir kosningaeftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu til að fylgjast með framkvæmd kosninganna.

„Snjallkosning“

Einn helsti stjórnarandstæðingur Rússlands, Alexei Navalní, sem nú situr í fangelsi, hefur reynt að hvetja fólk til að kjósa taktískt, þannig að þeir flykki sig á bakvið þann frambjóðenda sem þykir eiga mesta möguleika að hafa betur gegn frambjóðenda stjórnarflokksins í hverju kjördæmi fyrir sig. Tilheyra flestir frambjóðendurnir Kommúnistaflokknum.

Rússnesk yfirvöld bönnuðu í byrjun mánaðar Google og rússnesku leitarsíðunni Yandex að birta leitarniðurstöður fyrir „Umnoje golosowanije“, „snallkosning“ sem Navalní og stuðningsmenn hans hafa verið að hvetja til.

Stjórnarflokkurinn, Sameinað Rússland, er nú með 336 þingmenn af 450 í Dúmunni, neðri deild rússneska þingsins.


Tengdar fréttir

Pútín einangrar sig vegna smitaðra í hans innsta hring

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ákveðið að einangra sig eftir að fólk í hans innsta hring greindist með Covid-19. Forsetinn ku vera við góða heilsu en hann hefur fengið tvo skammta af rússneska bóluefninu Sputnik V.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×