Innlent

Uppsagnir flugmanna Bláfugls dæmdar ólögmætar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Jón Þór Þorvaldsson formaður FÍA.
Jón Þór Þorvaldsson formaður FÍA. Vísir/Arnar

Félagsdómur staðfesti í dag ólögmæti uppsagna Bláfugls á flugmönnum sem eru meðlimir í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA). FÍA fagnar niðurstöðunni en félagið höfðaði mál á hendur Samtökum atvinnulífsins sem Bláfugl heyrir undir.

Forsvarsmenn FÍA segja í tilkynningu málið vera fordæmisgefandi og því sé sigurinn mikilvægur, ekki bara fyrir flugmenn heldur fyrir öll stéttarfélög í landinu.

„Málsatvik eru þau að íslenskt fyrirtæki í örum vexti rekur alla félagsmenn stéttarfélags á einu bretti en hafði stuttu áður ráðið til sín sambærilegan fjölda gerviverktaka sem gengu beint í störf stéttarfélagsmanna. Þetta var gert þrátt fyrir að í kjarasamningi milli aðila hafi verið skýr ákvæði um forgangsrétt félagsmanna FÍA til starfa hjá Bláfugli sem dómurinn staðfesti að séu enn í gildi, rétt eins og Landsréttur hafði áður komist að niðurstöðu um,“ segir Jón Þór Þorvaldsson, formaður Félags íslenskra atvinnuflugmanna, í tilkynningu frá FÍA.

„Þetta er mikilvægur sigur í baráttu stéttarfélaga, eftirlitsaðila og stjórnvalda gegn gerviverktöku.“


Tengdar fréttir

Verk­falls­að­gerðir FÍA lög­mætar að mati Lands­réttar

Landsréttur hefur staðfest að verkfallsaðgerðir, sem Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) réðst í gegn Bláfugli ehf., hafi verið lögmætar. Bláfugl óskaði eftir lögbanni á verkfallsaðgerðir FÍA í febrúar síðastliðnum en sýslumaður hafnaði kröfu Bláfugls.

FÍA stefnir Blá­fugli og SA vegna ó­lög­mætra upp­sagna

Félag íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) hefur höfðað mál fyrir Félagsdómi vegna uppsagna flugmanna Bláfugls sem félagið telur ólögmætar. Að sögn FÍA er málið til skoðunar hjá Vinnumálastofnun auk þess sem ábending hefur verið send til skattyfirvalda vegna meintrar gerviverktöku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×