Erlent

Pútín einangrar sig vegna smitaðra í hans innsta hring

Samúel Karl Ólason skrifar
Vladimír Pútín, forseti Rússlands.
Vladimír Pútín, forseti Rússlands. AP/Alexei Druzhinin

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, hefur ákveðið að einangra sig eftir að fólk í hans innsta hring greindist með Covid-19. Forsetinn ku vera við góða heilsu en hann hefur fengið tvo skammta af rússneska bóluefninu Sputnik V.

Dmitrí Peskóv, talsmaður Pútíns, sagði blaðamönnum í morgun að Pútín hefði ekki greinst smitaður. Þá sagði hann ekki hve lengi forsetinn myndi einangra sig, né hverjir það eru sem hafa greinst smitaðir. Peskóv sagði það að um nokkra aðila væri að ræða, samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar.

Pútín sótt nokkra opinbera viðburði í gær. Hann hitti meðal annars rússneska íþróttamenn, sótti heræfingar með Hvíta-Rússlandi og hitti Bashar al Assad, forseta Sýrlands. AP sagði að á fundinum með íþróttamönnunum hefði Pútín sagt að hann þyrfti mögulega að einangra sig því margir í hans nánasta umhverfi væru veikir.

Forsetinn mun ekki sækja tvær öryggis- og efnahagsráðstefnur sem Rússland og Kína eru að halda næstu vikuna í persónu. Þess í stað mun hann sækja ráðstefnunnar stafrænt.

Pútín, sem er 68 ára gamall, hefur frá upphafi faraldurs kórónuveirunnar krafist þess að allir sem hitti hann fari í tveggja vikna sóttkví áður, samkvæmt frétt Moscow Times.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×