Innlent

Hótel, verslanir og líkamsrækt gætu litið dagsins ljós á Langasandi

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness.
Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness. Vísir/Egill

Útivistarperlan Langisandur mun taka á sig breytta mynd á næstu misserum, þegar hugmyndir íbúa um nýtt skipulag líta dagsins ljós í lok mánaðar. Hótel, verslanir og margs konar þjónusta er því mögulega það sem koma skal á svæðinu.

Íbúasamráð var haft um uppbyggingu á Langasandssvæðinu í lok síðasta árs. Út frá því voru þrjú teymi valin til þess að skila inn tillögum um skipulag og hönnun og dómnefnd falið að velja vinningstillöguna. Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, segir að vinningstillagan verði kynnt við hátíðlega athöfn í lok mánaðar.

„Við fengum íbúa bæjarins til að hugsa þetta með okkur og fengum síðan þrjú teymi til þess að leggja inn hugmyndir, sem spanna allt frá því hvernig við viljum fá hér ýmislegt, sem gæti verið líkamsrækt, hótel, eða bara hvað við viljum gera,“ segir Sævar.

„Við erum mjög bjartsýn. Við viljum hlúa að þessum glæsilega almenningsgarði sem Langasandssvæðið er.“

Markmiðið er að tengja allt svæðið betur, meðal annars strandsvæðið, skólasvæðið og hafnarsvæðið.

„Við höfum í höndunum náttúruperlu sem felur í sér einstaka möguleika til framtíðar,“ segir Sævar, en svæðið er afar vinsælt útivistarsvæði. „Þetta eru spennandi hugmyndir og við hlökkum til að sjá hvað kemur upp úr hattinum þegar niðurstaðan er komin.“

Tillögurnar þrjár má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×