Erlent

Bjóða fram tvo eins Borisa til að stela at­kvæðum frá þeim rétta

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Mynd af frambjóðendunum þremur. Hinn réttmæti Boris Vishnevsky er sá eini sem hafði fyrir því að setja á sig bindi fyrir myndatökuna.
Mynd af frambjóðendunum þremur. Hinn réttmæti Boris Vishnevsky er sá eini sem hafði fyrir því að setja á sig bindi fyrir myndatökuna. Twitter/Сергей Кузин

Boris Vis­hn­ev­sky, rúss­neskur fram­bjóðandi stjórnar­and­stöðu­flokks, sakar stjórnina um kosninga­svindl í komandi borgar­stjórnar­kosningum í Péturs­borg. Þegar listi yfir fram­bjóð­endur var birtur síðasta sunnu­dag mátti finna á honum tvo aðra sem báru sama nafn og Vis­hn­ev­sky og voru skugga­lega líkir honum.

Sam­kvæmt um­fjöllun The Guar­dian um málið er það þekkt taktík hjá rúss­neskum stjórnar­flokkum að bjóða fram menn með svipuð eða sömu nöfn og fram­bjóð­endur stjórnar­and­stöðunnar bera til að villa um fyrir kjós­endum og stela at­kvæðum. Í þetta skiptið er gengið enn lengra því hinir tveir Boris Vis­hn­ev­sky stjórnarinnar virðast hafa breytt út­liti sínu til að líkjast Vis­hn­ev­sky stjórnar­and­stöðunnar.

Hinn rétti Vis­hn­ev­sky segist hafa vitað til þess um nokkurn tíma að tveir mót­fram­bjóð­endur hans hefðu látið breyta nafni sínu í hans eigið. Þegar opin­ber listi yfir fram­bjóð­endur með myndum var svo birtur á sunnu­dag komu út­lits­breytingar þeirra í ljós.

Á listanum birtast þeir þrír hlið við hlið, allir að verða sköll­óttir, með eins grátt skegg og heita nánast ná­kvæm­lega sama nafni.

Hafa greinilega breytt útliti sínu

Vis­hn­ev­sky telur að mót­fram­bjóð­endurnir hafi greini­lega látið sér vaxa eins skegg og hann er með og telur að þeir hafi mögu­lega átt við myndir sínar með að­stoð Photos­hop til að líkjast honum enn frekar.

Á vef­síðu borgar­stjórnar Péturs­borgar má sjá mynd af öðrum tví­faranum áður en hann bauð sig fram en hann bar þá nafnið Viktor By­kov. Á myndinni er hann með mikið brúnt hár og lítur allt öðru vísi út en á fram­boðs­myndinni.

„Þetta er gert til að villa um fyrir kjós­endum svo þeir kjósi ó­vart vit­lausan fram­bjóðanda og í staðinn fyrir að kjósa réttan Vis­hn­ev­sky kjósa þeir einn af tví­förunum,“ sagði hinn rétt­mæti Vis­hn­ev­sky í sam­tali við The Guar­dian. Miðillinn náði ekki sam­bandi við tví­fara hans við gerð um­fjöllunar sinnar.

„Ég hef aldrei séð neitt þessi líkt,“ segir Vis­hn­ev­sky sem segir þetta greini­legt kosninga­svindl.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×