Erlent

Fólk festist og drukknar í bifreiðum og kjöllurum

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Veðrið hefur sett allar samgöngur úr skorðum.
Veðrið hefur sett allar samgöngur úr skorðum. AP/Craig Ruttle

Að minnsta kosti 45 hafa látist í úrhellisrigningu og flóðum í Bandaríkjunum. Joe Biden Bandaríkjaforseti segir þörf á sögulega umfangsmiklum fjárfestingum til að takast á við loftslagsvandann sem steðjar að heimsbyggðinni.

Um sé að ræða spurningu um líf og dauða.

Fordæmalaust rigningaveður hefur gengið yfir New York og New Jersey síðustu daga og hafa íbúar fests bæði í kjöllurum og bifreiðum.

Að minnsta kosti 23 hafa látið lífið í New Jersey, flestir eftir að hafa drukknað þegar flóðavatn gleypti bifreiðar þeirra. Þá eru fjórtán látnir í New York, þar af ellefu sem drukknuðu þegar þeir sátu fastir í kjöllurunum húsa sinna. Meðal látnu er tveggja ára drengur.

Einnig hefur verið tilkynnt um dauðsföll í Pennsylvaníu, Maryland og Virginíu.

Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í New Jersey og New York.

Bill de Blasio, borgarstjóri New York, hefur gagnrýnt veðurfræðinga harðlega fyrir spár sínar en á sama tíma og þeir spáðu 7,5 til 15 sentímetra regnfalli á einum sólahring féllu rúmir 8 sentímetrar af regni í Central Park á aðeins klukkustund.

Í uppsveitum hafa flóð valdið gríðarlegri eyðileggingu hjá bændum en í borginni þurfti að bjarga nærri þúsund manns úr neðanjarðarkerfinu eftir að vatn fossaði í gegnum kerfið.

Þá hafa bílar sést fljóta í vatnsflaumnum og vitni lýst því að heyra neyðarköll frá fólki sem hefur setið fast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×