Innlent

Gripinn með kíló af kókaíni í ferðatöskunni

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Fíkniefnin fundust falin í botni ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis.
Fíkniefnin fundust falin í botni ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis. Vísir/Jóhann K.

Þýsk-rússneskur karlmaður hefur verið dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi hér á landi fyrir innflutning á rétt tæpu kílói af kókaíni. Maðurinn játaði sök þegar málið var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness.

Maðurinn var ákærður fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi á 993,66 grömmum af kókaíni ætluðu til sölu hér á landi í ágóðaskyni. Ef miðað er við verðkönnum SÁÁ á götuvirði fíkniefna, sem síðast var gerð í mars á síðasta ári, má ætla að götuvirði kókaínsins sé rúmar tólf milljónir króna.

Flaug maðurinn hingað til lands þann 12. júní síðastliðinn frá Amsterdam í Hollandi. Fíkniefnin reyndust falin í botni ferðatösku sem maðurinn hafði meðferðis við komuna til landsins.

Var maðurinn gripinn við komuna til landsins og úrskurðaður í gæsluvarðhald daginn eftir að hann flaug hingað til lands.

Við þingfestingu málsins játaði maðurinn sök en í dómi héraðsdóms kemur fram að engin gögn liggi fyrir um að hann hafi áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Var maðurinn dæmdur í fimmtán mánaða fangelsi, auk þess sem að fíkniefnin voru gerð upptæk.

Þá þarf hann einnig að greiða málskostnað vegna málsins, alls um 1,2 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×