Körfubolti

Lið Stjörnunnar fullskipað en ekki með NBA-leikmanni

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Turner stýrir leik Stjörnumanna í vetur.
Robert Turner stýrir leik Stjörnumanna í vetur. Stjarnan

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur tryggt sér krafta Bandaríkjamannsins Roberts Turner sem mun leika með liðinu í vetur. Turner tekur við af Ægi Þór Steinarssyni sem leikstjórnandi Stjörnunnar en Ægir leikur á Spáni í vetur.

Þessar fréttir sýna að ekki verði af komu Josh Selby, fyrrverandi leikmanns Memphis Grizzlies í NBA-deildinni, en Karfan.is fullyrti á dögunum að Selby væri á leið í Garðabæinn.

Turner er lýst sem miklum íþróttamanni með mikinn sprengikraft, í yfirlýsingu Stjörnunnar, en hann er 188 sentímetrar á hæð og örvhentur.

Turner hefur leikið í 3. deild í Frakklandi síðsutu tvö ár með liði Vitre og var stigahæstur fyrra árið með 20,3 stig að meðaltali í leik en næststigahæstur seinna árið með 20,5 stig í leik.

Turner útskrifaðist úr Texas Tech háskólanum og skoraði 8,4 stig að meðaltali í háskólaboltanum. Auk þess að spila í Bandaríkjunum og Frakklandi hefur hann leikið í Mongólíu við góðan orðstír og í 2. deildinni á Spáni, þar sem Ægir mun einmitt leika í vetur.

Tímabilið hjá Stjörnunni hefst 7. september þegar liðið mætir KR í VÍS-bikarnum. Í yfirlýsingu félagsins segir að nú sé leikmannahópurinn fullmannaður.

Stjarnan hefur áður fengið slóvenska kraftframherjann David Gabrovsek, finnska landsliðsmanninn Shawn Hopkins, miðherjann hávaxna Ragnar Nathanaelsson, og bakvörðinn og fyrrverandi Haukamanninn Hilmar Smára Henningsson frá Valencia, auk þess sem hinn tvítugi Ingimundur Orri Jóhannsson sneri heim frá Þór Þorlákshöfn.


Tengdar fréttir

Stjörnumenn fá slóvenskan liðsstyrk

Körfuknattleiksdeild Stjörnunnar hefur gengið frá samningum við Slóvenann Dav­id Ga­brov­sek um að leika með liðinu á komandi tímabili í Domino's deild karla.

Nat-vélin samdi við Stjörnuna

Íslenski landsliðsmiðherjinn Ragnar Nathanaelsson mun spila áfram í úrvalsdeild karla í körfubolta á komandi tímabili.

Hilmar frá Valencia til Stjörnunnar

Hilmar Smári Henningsson er genginn í raðir Stjörnunnar frá spænska liðinu Valencia og mun leika með Garðbæingum í úrvalsdeild karla í körfubolta næsta vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×