Erlent

Breivik sækist eftir reynslulausn

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá minningarathöfn um fórnarlömb fjöldamorðsins í Útey árið 2019. Fremst stendur Jens Stoltenberg sem var forsætisráðherra Noregs þegar hryðjuverkin voru framin.
Frá minningarathöfn um fórnarlömb fjöldamorðsins í Útey árið 2019. Fremst stendur Jens Stoltenberg sem var forsætisráðherra Noregs þegar hryðjuverkin voru framin. Vísir/EPA

Norskur dómstóll þarf að taka fyrir ósk hryðjuverkamannsins Anders Behring Breivik um reynslulausn eftir að ríkissaksóknari hafnaði beiðninni. Breivik hefur nú afplánað tíu ár af 21 árs fangelsisdómi sem hann hlaut.

Dæmdir menn eiga rétt á að sækja um reynslulausn eftir tíu ára fangelsi í Noregi. Breivik hlaut þyngsta mögulega dóm en hægt er að framlengja hann ótímabundið. Hann skaut 69 manns til bana í sumarbúðum Verkamannaflokksins á Úteyju í júlí árið 2011. Fyrr um daginn hafði bílsprengja sem hann sprengdi við skrifstofu forsætisráðherra í Osló orðið átta manns að bana.

Hulda Karlsdottir, saksóknarinn í máli Breikvik, segir Reuters-fréttastofunni að ósk hans um reynslulausn verði tekin fyrir hjá svæðisdómstól í Þelamörk þar sem hann situr í fangelsi. Engin ákvörðun hefur verið tekin um hvenær málið verður tekið fyrir eða hvar. Lögmenn Breivik vilja að hann fái að koma fyrir dómara en saksóknarar að málið verði tekið fyrir í fangelsinu.

Breivik aðhylltist öfgahægrihugmyndir og hvíta þjóðernishyggju um að múslimar væru að leggja undir sig Evrópu. Áður en hann framdi fjöldamorðin birti hann langorða stefnuyfirlýsingu þar sem hann fór ofan í saumana á þeim skoðunum sínum.


Tengdar fréttir

„Hryðjuverkamaðurinn var einn af okkur“

Tíu ár eru liðin í dag frá voðaverkunum í Osló og Útey, þar sem norskur hryðjuverkamaður myrti 77 manns, aðallega ungmenni í Norska verkamannaflokknum. Fórnarlambanna var minnst víða um heim og minnt á að sjónarmiðin sem hvöttu Anders Behring Breivik til ofbeldisverkanna séu síður en svo útdauð í nútímasamfélagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×