Erlent

Aflífun 154 katta vekur sorg og reiði í Taívan

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Myndir af kettlingum í búrum, sem teknar voru skömmu áður en kettirnir voru aflífaðir, fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum.
Myndir af kettlingum í búrum, sem teknar voru skömmu áður en kettirnir voru aflífaðir, fóru í dreifingu á samfélagsmiðlum.

Mikil reiði greip um sig á samfélagsmiðlum í Taívan eftir að yfirvöld greindu frá því að 154 kettir hefðu verið aflífaðir eftir að þeir fundust á fiskibát. Um var að ræða hreinræktaða ketti sem smygla átti inn í landið.

Báturinn var stöðvaður við strendur Kaohsiung en eftir að áhöfnin hafði verið skimuð fyrir Covid-19 fóru yfirvöld um borð og fundu kettina. Þeir voru aflífaðir á laugardag, sem vill svo til að er alþjóðlegur dagur heimilislausra dýra.

Samkvæmt yfirvöldum var ákvörðunin um að aflífa dýrin tekin vegna þess að uppruni þeirra var óþekktur og mögulegrar sjúkdómahættu. Hún var hins vegar harðlega fordæmd, bæði af einstaklingum og dýraverndarsamtökum.

Gæludýraeign er útbreidd í Taívan og mikill iðnaður hefur sprottið upp í tengslum við dýrin, meðal annars sala á alls kyns varningi og þjónustu, en í Taívan er til dæmis ekki óalgengt að eiga sérstaka dýrakerru og fara með „besta vininn“ til sérstaks dýra-miðils.

Aflífun dýranna vakti svo mikla hneykslan og sorg að forseti Taívans, sem á sjálf tvo ketti, sá sig tilneydda að senda frá sér formlega yfirlýsingu vegna málsins. Þar sagðist hún harma örlög kattanna en að sökudólgarnir væru smyglararnir. 

Margir þeirra sem tjáði sig um málið á samfélagsmiðlum vörpuðu hins vegar fram þeirri spurningu hvort það hefði ekki mátt setja kettina í sóttkví eða meðhöndla þá ef þeir voru veikir. Aðrir hvöttu samlanda sína til að draga lærdóm af harmleiknum og taka heldur að sér heimilislaus dýr í stað þess að kaupa hreinræktað.

Kettirnir sem voru aflífaðir voru metnir á um 46 milljónir króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×