Golf

Norðurlandabarátta fyrir lokahringinn á Opna breska

Valur Páll Eiríksson skrifar
Anna Nordqvist lék frábærlega í gær.
Anna Nordqvist lék frábærlega í gær. Charlie Crowhurst/R&A/R&A via Getty Images

Hin sænska Anna Nordqvist lék besta hring mótsins á Opna breska meistaramótinu í golfi á Carnoustie-vellinum í Skotlandi í gær. Hún deilir forystunni með hinni dönsku Nönnu Koertz Madsen á afar jöfnu móti. Lokahringurinn fer fram í dag.

Nordqvist átti stórbrotinn hring þar sem hún lék á 54 höggum, sjö undir pari vallar, sem var besti hringur mótsins til þessa. Hún fékk sjö fugla á hringnum og fór aðrar holur á pari. Með árangrinum skaust hún upp úr 23.-30. sæti á toppinn.

Nordqvist er á níu höggum undir pari en jöfn henni er hin danska Nanna Koertz Madsen sem lék á 57 höggum, fjórum undir pari, á Carnoustie í gær og er einnig á níu undir parinu í heildina.

Lokahringur Opna breska meistaramótsins verður leikinn í dag og hefst bein útsending frá mótinu klukkan 11:00 á Stöð 2 Golf.

Spennan er mikil á toppnum þar sem hin bandaríska Lizette Salas er aðeins höggi á eftir Norðurlandakonunum en hún var í 3.-4. sæti eftir fyrstu tvo hringina. Hringur upp á tvö högg undir pari dugar henni til að vera ein í þriðja sæti á átta undir parinu.

Tvær Norðurlandakonur til viðbótar koma þar á eftir. Hin sænska Madelene Sagström lék á þremur undir pari í gær og er á sjö undir pari í heildina. Sanna Nuutinen frá Finnlandi er með sama skor eftir að hafa leikið einu höggi betur en Sagström.

4.-7. sætinu deila með þeim tveimur Lexi Thompson frá Bandaríkjunum og heimakonan Louise Duncan. Sú hefur vakið athygli á mótinu en hún er skráð sem áhugamaður. Nýlega fagnaði hún sigri á Opna breska mótinu fyrir áhugamenn og var höggi frá toppnum eftir fyrsta hringinn. Duncan hefur nú skráð sig inn í toppbaráttuna fyrir lokahringinn í dag.

Hin enska Georgia Hall, sem vann mótið árið 2018, var í forystu eftir annan hringinn ásamt Minu Harigae frá Bandaríkjunum. Harigae fataðist flugið í gær er hún lék á fjórum yfir pari og hrundi niður í 27.-32. sæti.

Hall er aðeins höggi á eftir Sagström, Nuutinen, Thompson og Duncan. Ólympíumeistarinn Nelly Korda, sem er efst á heimslistanum, er á sex höggum undir pari líkt og Hall, auk fimm annarra.

Ljóst er að spennan verður mikil á lokahringnum í dag og sýnir hörkuhringur Nordqvist í gær að alls kyns sviptingar geta átt sér stað.

Öll stærstu golfmótin eru á Stöð 2 Golf en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Stöð 2 Golf kostar 3.990 krónur á mánuði en er einnig hluti af Sportpakkanum. Helgarpassa að Stöð 2 Golf má kaupa á kerfum Vodafone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×