Fótbolti

Albert og félagar töpuðu í Glasgow

Valur Páll Eiríksson skrifar
Albert og félagar hans í AZ eiga mikið verk fyrir höndum í næstu viku.
Albert og félagar hans í AZ eiga mikið verk fyrir höndum í næstu viku. ANP Sport via Getty Images

Albert Guðmundsson og félagar hans í AZ Alkmaar eru í slæmri stöðu í umspili um sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar eftir 2-0 tap fyrir Celtic í fyrri leik liðanna í Glasgow í kvöld.

Albert var í byrjunarliði AZ í dag sem lenti snemma undir í leiknum. Japaninn Kyogo Furuhashi, sem hefur komið frábærlega inn í lið Celtic eftir skipti sín frá Vissel Kobe í sumar, kom Celtic yfir eftir aðeins tólf mínútna leik.

1-0 stóð í hléi en Furuhashi lagði upp annað mark Celtic fyrir James Forrest eftir rúmlega stundarfjórðungsleik í síðari hálfleik. Skömmu síðar, á 72. mínútu, var Albert skipt af velli í liði AZ.

Þeir hollensku voru að elta allan leikinn og áttu erfitt með Celtic-liðið sem var líklegra til að bæta við marki heldur en AZ var til að minnka muninn. 2-0 fór leikurinn hins vegar og Celtic í góðri stöðu fyrir síðari leikinn í Hollandi á fimmtudaginn í næstu viku.

Liðið sem vinnur viðureignina fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×