Fótbolti

Bayern München vann þýska Ofurbikarinn í níunda sinn

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Robert Lewandowski skoraði tvö mörk fyrir Bayern München í kvöld.
Robert Lewandowski skoraði tvö mörk fyrir Bayern München í kvöld. Lars Baron/Getty Images

Borussia Dortmund og Bayern München áttust við í baráttunni um þýska Ofurbikarinn í kvöld. Lokatölur 3-1, Bayern München í vil, en þetta var í níunda skipti sem liðið vinnur bikarinn.

Ofurbikarinn er viðureign Þýskalandsmeistara og bikarmeistara Þýskalands, en það var markahrókurinn Robert Lewandowski sem skoraði fyrsta mark leiksins. Það kom á 41. mínútu eftir stoðsendingu frá Serge Gnabry.

Staðan var því 1-0 þegar flautað var til hálfleiks, en Thomas Müller var ekki lengi að tvöfalda forystuna eftir hlé. Seinni hálfleikur var ekki nema tæplega fjögurra mínútna gamall þegar að boltinn barst til hans inn í teig þar sem hann var einn á móti marki, og eftirleikurinn auðveldur.

Marco Reus minnkaði muninn á 64. mínútu með glæsilegu marki. Ungstirnið Jude Bellingham renndi boltanum þá út á Reus sem smellhitti boltann og hann söng í netinu.

Tíu mínútum síðar var munurinn þó aftur orðin tvö mörk þegar að Bayern menn nýttu sér slæm mistök Manuel Akanji í vörn Dortmund. Akanji reyndi þá að spila boltanum út úr vörn Dortmund manna en Corentin Tolisso þvældist fyrir. Boltinn barst á Lewandowski sem klaraði af miklu öryggi.

Þetta reyndist seinasta mark leiksins og það voru því Bayern München sem fögnuðu 3-1 sigri og Ofurbikarinn því þeirra í níunda skipti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×