Erlent

Fimm sagðir látnir á flug­vellinum í Kabúl

Atli Ísleifsson skrifar
Fólk reynir nú að ryðja sér leið um borð í flugvélar á flugvellinum í Kabúl.
Fólk reynir nú að ryðja sér leið um borð í flugvélar á flugvellinum í Kabúl. Twitter

Mikil ringulreið ríkir nú á flugvellinum í afgönsku höfuðborginni Kabúl eftir að þúsundir manna flykktust þangað í þeirri von að geta flúið land. Sjónarvottar segja í samtali við Reuters að fimm hið minnsta séu látnir.

Á myndböndum á samfélagsmiðlum má sjá mikinn fjölda fólks sem hefur streymt úr flugstöðinni og út á flugvöllinn í tilraun til að komast um borð í flug.

Mikill fjöldi hefur reynt að flýja land eftir að liðsmenn Talibana náðu höfuðborginni Kabúl á sitt vald í gær. Ashraf Ghani, forseti Afganistans, flúði land í gær, að sögn til að koma í veg fyrir blóðbað. 

Bandarískir hermenn hafa skotið viðvörunarskotum þar sem þeir reyna að hafa stjórn á þeim mikla fjölda sem er þar saman kominn.

Reuters segir frá því að fimm hið minnsta séu látnir eftir að nokkur hundruð manna reyndu að brjóta sér leið í flugvélar sem lagðar eru á vellinum. Ekki sé ljóst hvort fólkið hafi látist af völdum skotsára eða af öðrum orsökum.


Tengdar fréttir

Segjast ætla að auka lífsgæði afgönsku þjóðarinnar

Mullah Baradar Akhund, annar helsti leiðtogi Talibana í Afganistan, sagði í myndbandsávarpi til afgönsku þjóðarinnar í gær að nú væri kominn tími til að sjá fyrir þjóðinni og færa líf hennar til betri vegar.

Ghani segist hafa yfirgefið Afganistan til að afstýra blóðbaði

Ashraf Ghani, forseti Afganistan, staðfestir að hann hafi yfirgefið landið eftir innrás Talíbana í Kabúl. Hann segist hafa staðið frammi fyrir erfiðri ákvörðun en kosið að flýja til að forðast áframhaldandi blóðsúthellingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×