Viðskipti innlent

Hlölli og fjölskylda opna Litlu kaffistofuna

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Litla kaffistofan mun bráðum opna á nýjan leik eftir að hafa verið lokað fyrr í sumar.
Litla kaffistofan mun bráðum opna á nýjan leik eftir að hafa verið lokað fyrr í sumar. Facebook/Litla Kaffistofan

Hlöðver Sigurðsson, stofnandi Hlöllabáta, hefur tekið við rekstri Litlu kaffistofunnar, ásamt fjölskyldu sinni. En Litla kaffistofan mun brátt opna dyr sínar á ný eftir að hafa verið lokað fyrr í sumar.

„Þessi fjölskylda er samheldin og samrýnd og hefur unnið saman að ýmsum verkefnum í gegnum árin - næsta verkefni er Litla kaffistofan,“ segir í tilkynningu á Facebook síðu Litlu kaffistofunnar.

Hlöðver stofnaði Hlöllabáta árið 1986 en fjölskyldan seldi staðinn árið 2012.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Elín Guðný, dóttir Hlöðvers, að fjölskyldan hafi ákveðið að stökkva á tækifærið um leið og hún sá að Litla kaffistofan væri að loka. En þau tóku við lyklunum nokkrum dögum eftir að fyrri eigendur lokuðu staðnum.

Litla kaffistofan er einn þekktasti áningarstaðurinn við þjóðveg eitt, en rekstur hennar hófst árið 1960.

Fjölskyldan hefur gert smávægilegar endurbætur innanhúss en segist munu leggja mikið upp úr því að halda í andrúmsloft og upplifun staðarins.

Fjölskyldan segist spennt fyrir þessu nýja verkefni. Þau bíða nú starfsleyfis en vonast til þess að geta opnað sem fyrst.

„Við hlökkum mikið til að opna dyrnar að Litlu kaffistofunni að nýju og við getum ekki beðið eftir að hitta ykkur öll.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×