Innlent

Bann við ein­­nota plasti er ekki lofts­lags­­mál

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Gró Einarsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun.
Gró Einarsdóttir, sérfræðingur á sviði loftslagsmála og græns samfélags hjá Umhverfisstofnun. aðsend

Bann við ein­nota plast­vörum er ekki hugsað til að sporna gegn losun gróður­húsa­loft­tegunda heldur að­eins til að minnka þann plast­úr­gang sem endar í sjónum. Sér­fræðingur hjá Umhverfisstofnun segir að það sé sjálf­stætt um­hverfis­vanda­mál að plast og plast­eindir endi í dýrum og berist jafn­vel úr þeim í menn þó lausnir við því geti vissu­lega haldist í hendur við það að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda.

Eins og Vísir og Stöð 2 fjölluðu um í gær hafa af­leiðingar banns við ýmsum ein­nota plast­vörum farið öfugt ofan í marga neyt­endur.

Það virðast helst pappa­r­ör og pappa­skeiðar sem fara í taugarnar á fólki en mörgum þykir skjóta ansi skökku við að þessum litlu plast­einingum hafi verið skipt út fyrir pappa á meðan þau eru hluti af mun stærri um­búðum úr plasti. Þetta á til dæmis við skyrdollur; þær eru úr plasti, með plast­loki og plast­filmu utan um litla pappa­skeið.

vísir/óttar

Margir hafa kvartað yfir þessu á samfélagsmiðlum; að neytendur séu látnir bera byrðina þegar leysa á loftslagsvandann en ekki þau stórfyrirtæki, sem bera helst ábyrgð á hlýnun jarðar. 

Stórt og jákvætt skref

Gró Einars­dóttir, sér­fræðingur á sviði lofts­lags­mála og græns sam­fé­lags hjá Um­hverfis­stofnun, segir í sam­tali við Vísi að þetta séu eðli­legar vanga­veltur fólks. Bannið við ýmsum ein­nota plast­vörum, sem tók gildi í byrjun júlí, er þó hugsað til að minnka þann plast­úr­gang sem endar í sjónum.

„Þetta bann nær í raun bara yfir þessar vörur sem eru lík­legastar til að enda í sjónum. Þetta er veru­lega stórt og já­kvætt skref í þá átt að minnka plast í sjónum því það gerist að fólk missi eða fleygi þessum litlu hlutum frá sér í náttúruna í hugsunar­leysi. Það er þá sem þau enda á að fjúka út í sjó,“ segir Gró.

„Og það er þetta eina litla augna­blik sem hefur svo á­hrif kannski næstu þúsund árin. Því plastið sjálft er gríðar­lega lengi að brotna niður og þá brotnar það bara niður í litlar plastagnir, sem enda síðan í fuglum og fiskum og þá jafn­vel í mönnum sem borða svo fiskinn.“

Hugsunin með banninu er þannig ekki að draga úr losun gróður­húsa­loft­tegunda?

„Nei, þetta er ekki hluti af að­gerðar­á­ætlun stjórn­valda í loftslagsmálum. Þetta er annað og sjálf­stætt vanda­mál, sem snýst um að vernda líf­ríkið í sjónum og getur auð­vitað verið bara heilsuspillandi fyrir okkur líka. En svo getur þetta haldist í hendur því mark­miðið á endanum er að skipta út þessum ein­nota vörum og inn­leiða hring­rásar­hag­kerfi,“ segir Gró.

Sumar þessara pappa­vara geti jafn­vel verið orkufrekari í fram­leiðslu en plastið. Pappinn brotni þó mun hraðar niður og hafi engan vegin eins skað­leg á­hrif á lífríki sjávar og plast.

Lítil breyting sem við finnum mikið fyrir

Gró segir plast­rörin og skeiðarnar að­eins toppinn á plast­fjallinu sem lögin taka á:

„Þetta er bara það sem við finnum mest fyrir í okkar dag­lega lífi en það er verið að inn­leiða reglur í ís­lensk lög sem ná mun lengra. Til dæmis er verið að auka á­byrgð fram­leið­enda svo þeir beri mun meiri kostnað af plast­úr­gangi og fleira.“

Gró segir eðli­legt að neyt­endur láti í sér heyra ef að pappa­vörurnar virka ekki nógu vel fyrir þá. Þá sé það fram­leið­enda að bregðast við því með betri út­gáfum og svo vonast hún til að sem flestir fari að nota fjöl­nota á­höld. Það eru framleiðendur einmitt að gera.

Guð­ný Steins­dóttir, markaðs­stjóri MS, sagði við frétta­stofuna í gær að fyrir­tækið væri með­vitað um að það væri ekki allir sáttir með nýju pappa­á­höldin en sagði að fleiri og fleiri væru að ná að venja sig á þennan nýja raun­veru­leika. Þá fylgdist MS vel með þróun á slíkum vörum úti í heimi og væri sí­fellt að leita nýrra og betri lausna í þessum efnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×