Fótbolti

Neitar því að hafa unnið að því að losna við Messi úr spænsku deildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Florentino Perez, forseta Real Madrid, pg Lionel Messi með nýja PSG búninginn.
Florentino Perez, forseta Real Madrid, pg Lionel Messi með nýja PSG búninginn. Samsett/EPA

Forseti Real Madrid hafnar þeim ásökunum að hann hafi reynt að hjálpa til að koma Lionel Messi úr spænsku deildinni.

Real Madrid þarf ekki lengur að hafa áhyggjur af því að stöðva Lionel Messi hjá Barcelona. Messi er ekki lengur leikmaður Barca heldur kominn til Paris Saint Germain.

Nú stendur spænska deildin eftir án sinnar stærstu stjörnu og innanbúðarmaður hjá Börsungum hefur bent á Florentino Perez, forseta Real Madrid, sem geranda í þessu máli.

Jaume Llopis, fyrrum stjórnarmaður hjá Joan Laporta hjá Barcelona, sagði af sér þegar Lionel Messi fór frá félaginu.

Hann heldur því fram að bæði Perez og Ferran Reverter, framkvæmdastjóri Barcelona, hafi sannfært Laporta um bæði að láta Messi fara sem og að samþykkja ekki söluna á tíu prósent hlut í spænsku deildinni til fjárfestingarsjóðsins CVC Capital Partners.

Spænska knattspyrnusambandið er líka að berjast á móti sölunni til CVC Capital Partners sem það telur hana ólöglega.

Hefði salan gengið í gegn þá hefði deildin fengið samtals 2,7 milljarða evra innspýtingu sem hefði um leið þýtt að Barcelona hefði meira pláss innan þá hærra launaþaks til að semja við Messi.

Perez hefur krafist þess að Llopis dragi orð sín til baka. „Það er ómögulegt fyrir mig að hafa einhver áhrif hjá Barcelona hvort sem það snýr að brottför Mressi eða einhverri annarri ákvörðun hjá F.C. Barcelona,“ sagði Florentino Perez.

„Það er líka hrein lygi að ég hafi verið vinur Ferran Reverter hjá Barcelona þar sem ég hef aðeins hitt hann tvisvar sinnum á ævinni, fyrst fyrir fjórum mánuðum og svo aftur á laugardaginn á fundinum með Joan Laporta forseta og Andrea Agnelli, forseta Juventus,“ sagði Perez.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×