Íslenski boltinn

Stjarnan og Breiðablik spila í kvöld leikinn sem fór aldrei fram í fyrra

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá síðasta leik Stjörnunnar og Breiðabliks í Garðabænum.
Frá síðasta leik Stjörnunnar og Breiðabliks í Garðabænum. Vísir/Vilhelm

Í kvöld fáum við að sjá einn af leikjunum í Pepsi Max deild karla sem hafa ekki farið fram í tvö ár.

Stjarnan tekur þá á móti Breiðablik í 16. umferð Pepsi Max deild karla en nágrannarnir mættust aldrei í Garðabænum síðasta sumar.

Leikurinn var nefnilega einn af þeim sem voru ekki spilaðir á Íslandsmótinu eftir að síðustu fjórum umferðunum var aflýst vegna útbreiðslu kórónuveirunnar.

Leikurinn í kvöld hefst klukka 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Pepsi Max Upphitun hefst klukkan 18.50 og Pepsi Max Stúkan mun gera upp leikinn eftir hann á sömu stöð.

Liðin mættust síðast í Garðabænum 18. júní 2019 og þann leik unnu Blikar 3-1. Mörk Blika í þeim leik skoruðu Aron Bjarnason, Guðjón Pétur Lýðsson og Alexander Helgi Sigurðsson. Aðeins Alexander verður með í kvöld.

Þetta er samt annar leikur liðanna í sumar en Blikar unnu fyrri leikinn 4-0 í Kópavoginum í maí þar sem Kristinn Steindórsson, Viktor Örn Margeirsson, Árni Vilhjálmsson og Höskuldur Gunnlaugsson skoruðu mörk Blika.

Það óhætt að segja að Blikarnir hafi verið með smá taka á Stjörnumönnum upp á síðkastið.

Stjörnumenn unnu Blika síðast í bikarúrslitaleiknum 2018 en síðasti deildarsigur Stjörnunnar á nágrönnum sínum úr Smáranum var 2-1 sigur þeirra 25. ágúst 2018.

Blikar hafa náð í tíu stig af tólf mögulegum út úr síðustu fjórum deildarleikjum liðanna en Stjarnan er aðeins með eitt stig út úr þessum sömu fjórum leikjum.

Pepsi Max deild karla er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Pepsi Max deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×