Fótbolti

Kanadísku stelpurnar Ólympíumeistarar eftir vítakeppni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kandadísku stelpurnar Deanne Rose og Shelina Zadorsky fagna sigri í vítakeppninni.
Kandadísku stelpurnar Deanne Rose og Shelina Zadorsky fagna sigri í vítakeppninni. AP/Fernando Vergara

Kanada tryggði sér sitt fyrsta Ólympíugull í knattspyrnu kvenna eftir sigur á Svíþjóð í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik á Ólympíuleikunum í Tókýó í dag.

Stephanie Labbé var hetja kanadíska liðsins en hún varði tvö víti í vítaspyrnukeppninni sem Kanada vann 3-2. Labbé spilar einmitt í Svíþjóð með Rosengård.

Hedvig Lindahl, markvörður Svía, varði tvö af fyrstu fjórum vítum kanadísku stelpnanna og fyrirliði sænska liðsins Caroline Seger gat í framhaldinu tryggt sænska liðinu gullið. Seger skaut hins vegar boltanum yfir og Kanada náði að jafna í næstu spyrnu.

Labbé varði fyrsta víti Svía í bráðabana og það var síðan hin tvítuga Julia Grosso sem skoraði sigurmarkið úr sjötta víti Kanada.

Sænska liðið tapaði úrslitaleiknum á síðustu leikum og Kanada hafði unnið bronsverðlaun á síðustu tveimur Ólympíuleikum.

Stina Blackstenius kom sænska liðinu í 1-0 á 34. mínútu með skoti úr teignum eftir sendingu frá Kosovare Asllani. Þetta var hennar fimmta mark á leikunum.

Sænska liðið var yfir í leikum í 33 mínútur eða fram í miðjan seinni hálfleik.

Jessie Fleming tryggði Kanada sigur á Bandaríkjunum í undanúrslitunum á vítapunktinum og hún klikkaði heldur ekki þegar Varsjáin gaf Kanada víti á 67. mínútu.

Reynsluboltinn féll í teignum og Jessie Fleming skoraði af öryggi alveg eins og hún gerði á móti Bandaríkjunum.

Staðan var jöfn eftir venjulegan leiktíma og ekkert var skorað í framlengingunni. Því réðust úrslitin í vítakeppni.

Vítaspyrnukeppnin: Svíþjóð - Kanada 2-3

  • Kosovare Asllani skot í stöngina
  • Jessie Fleming mark, 0-1

  • Nathalie Björn mark, 1-1
  • Ashley Lawrence, Hedvig Lindahl varði
  • Olivia Schough mark, 2-1
  • Vanessa Gilles, skot í slá
  • Anna Anvegård , Stephanie Labbé varði
  • Adriana Leon, Hedvig Lindahl varði
  • Caroline Seger, skot yfir
  • Deanne Rose mark, 2-2
  • Jonna Andersson, Stephanie Labbé varði
  • Julia Grosso mark, 2-3



Fleiri fréttir

Sjá meira


×