Fótbolti

Messi á förum frá Barcelona

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Lionel Messi er nú í leit að öðru félagi.
Lionel Messi er nú í leit að öðru félagi. Manuel Queimadelos/Quality Sport Images/Getty Images

Þau risastóru tíðindi voru að berast að Lionel Messi mun ekki skrifa undir nýjan samning við spænska félagið Barcelona. Messi varð samningslaus þann 30. júní síðastliðinn, og nú fyrr í dag sigldu samningaviðræður hans við Barcelona í strand.

Barcelona greinir frá þessu á opinberri heimasíðu sinni, en ástæðan er sögð vera fjárhagsstaða félagsins.

Þar kemur einnig fram að félagið og leikmaðurinn hafi verið búin að ná samkomulagi um nýjan samning, en af honum geti ekki orðið vegna fjárhagsreglugerðar spænsku deildarinnar.

Messi, sem er 34 ára, hefur spilað allan sinn feril með Barcelona. Með liðinu hefur hann spilað 778 leiki og skorað í þeim 672 mörk, ásamt því að leggja upp önnur 305 fyrir liðsfélaga sína. Hann á einnig að baki 151 leik með argentínska landsliðinu. 

Með Barcelona hefur hann unnið spænsku deildina tíu sinnum, spænska bikarinn sjö sinnum, spænska ofurbikarinn átta sinnum og Meistaradeild Evrópu fjórum sinnum.

Hann er af mörgum talinn einn besti knattspyrnumaður sögunnar og það er því ljóst að áhugi frá öðrum liðum að fá þennan argentíska töframann til sín verður mikill.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×