Fótbolti

Bandarísku stelpurnar tryggðu sér bronsið eftir mikinn markaleik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Reynsluboltarnir Megan Rapinoe og Carli Lloyd skoruðu báðar tvö mörk í bronsleiknum og hér fagna þær saman öðru marka Rapinoe.
Reynsluboltarnir Megan Rapinoe og Carli Lloyd skoruðu báðar tvö mörk í bronsleiknum og hér fagna þær saman öðru marka Rapinoe. AP/Andre Penner

Bandaríska kvennalandsliðið í fótbolta klúðraði tækifærinu á að spila um gullið á Ólympíuleikunum í Tókýó en þær unnu bronsið í dag eftir sjö marka leik.

Bandaríkin mættu Ástralíu og unnu leikinn 4-3 eftir að hafa verið 3-1 yfir í hálfleik og leiða 4-1 í upphafi síðari hálfleiks. Áströlsku stelpurnar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins og settu mikla pressu á bandaríska liðið. Bæði liðin töpuðu undanúrslitaleiknum með minnsta mun gegn Svíþjóð og Kanada sem spila um gullið á morgun.

Megan Rapinoe og Carli Lloyd skoruðu báðar tvö mörk í leiknum en þetta voru fyrstu mörk þeirra á leikunum. Hin 39 ára gamla Lloyd er komin með 128 mörk fyrir landsliðið en hin 36 ára gamla Rapinoe hefur skorað 61 landsliðsmark.

Þetta er í fyrsta sinn sem bandaríska kvennalandsliðið vinnur brons en það hafði áður unnið fjögur gull og eitt silfur. Ástralska liðið átti möguleika á sínum fyrstu Ólympíuverðlaunum í greininni.

Bandaríska liðið var í úrslitaleik Ólympíuleikanna á fyrstu fimm leikunum sem kvennafótbolti var með en hefur nú klikkað á að komast þangað á tveimur leikum í röð.

Megan Rapinoe kom bandaríska liðinu tvisvar yfir á fyrstu 22 mínútum leiksins en Sam Kerr jafnaði metin í 1-1 á milli markanna.

Reynsluboltinn Carli Lloyd skoraði síðan sitt hvorum megin við hálfleikinn og kom bandaríska liðinu í 4-1. Fyrra markið kom í uppbótartíma fyrri hálfleiks en það seinna á 51. mínútu.

Áströlsku stelpurnar ætluðu ekki að gefast upp og Caitlin Foord minnkaði muninn í tvö með skallamarki þremur mínútum eftir seinna mark Lloyd.

Sam Kerr átti stuttu síðar skalla sem fór í stöngina og rúllaði eftir marklínunni án þess að fara í markið.

Carli Lloyd hélt síðan að hún væri búin að innsigla þrennuna en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Ástralska liðið náði loks að minnka muninn í blálokin með marki Emily Gielnik á 90. mínútu en bandaríska liðið hélt út og tryggði sér bronsið. Það var samt pressa á bandaríska liðinu og dómari leiksins flautaði síðan leikinn af þegar áströlsku stelpurnar áttu horn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×