Erlent

Hefja rannsókn á notkun kannabisúða gegn heilakrabbameini

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Samkvæmt frétt Guardian greinast um 2.200 einstaklingar með umrætt krabbamein á ári hverju í Bretlandi.
Samkvæmt frétt Guardian greinast um 2.200 einstaklingar með umrætt krabbamein á ári hverju í Bretlandi. Getty

Breska heilbrigðisþjónustan (NHS) hyggst í samvinnu við bresk krabbameinsfélög hefja rannsókn á mögulegum lækningarmætti munnholsúða sem inniheldur kannabínóíða gegn fjórða stigs tróðæxlum (e. glioblastoma).

Um er að ræða fyrstu rannsókn sinnar tegundar í heiminum en hún mun ganga út á að kanna hvort lyfið Sativex hjálpar til við að drepa krabbameinsfrumur og mögulega lengja líf einstaklinga með umrædda tegund tróðæxla.

Lyfið verður gefið samhliða krabbameinslyfinu temozolomide.

Tróðæxlin sem um ræðir eru ágeng og alvarleg heilaæxli, sem koma nær alltaf aftur þrátt fyrir skurðaðgerðir, geisla- og lyfjameðferðir. Lifun eftir greiningu er venjulega um tólf til átján mánuðir og tíu mánuðir þegar um er að ræða endurkomu.

Sativex er þegar notað til að draga úr síspennu hjá einstaklingum með heila- og mænusigg (MS) sem hafa ekki svarað öðrum meðferðum. Það er skráð í sérlyfjaskrá Lyfjastofnunar og virðist því vera í notkun hér á landi.

Virðist hafa áhrif á lifun

Niðurstöður fyrstu rannsókna á notkun Sativex gegn tróðæxlum, þar sem verið var að kanna öryggi lyfsins, benda til þess að það geti bætt lífsgæði að minnsta kosti hluta sjúklinga og jafnvel lengt líf þeirra um einhverja mánuði.

Rannsóknirnar leiddu í ljós að fleiri voru á lífi ári eftir greiningu í þeim hópi sem fékk Sativex en í þeim hópi sem fékk lyfleysu.

„Rannsóknin var ekki hönnuð til að prófa hvort Sativex hefði áhrif á lifun. Niðurstöðurnar leiddu hins vegar í ljós að sumum sem fengu Sativex farnaðist betur en vonir stóðu til og betur en þeim sem gengust aðeins undir lyfjameðferð,“ segir Susan Short, prófessor í krabbameinslækningum og taugakrabbameinslækningum við Leeds University.

Samkvæmt upplýsingum á heimasíðu Krabbameinsfélags Íslands greinast um 75 einstaklingar með krabbamein í heila og miðtaugakerfinu á ári hverju. Þar er hins vegar ekki að finna upplýsingar um tíðni undirtegunda á borð við fjórða stigs tróðæxli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×