Innlent

Reyndu að smygla sér inn á fullt tjald­svæði

Elma Rut Valtýsdóttir skrifar
Mikið var um að vera á tjaldsvæðinu Hömrum í gærkvöldi og í nótt.
Mikið var um að vera á tjaldsvæðinu Hömrum í gærkvöldi og í nótt. Stöð 2

Þrátt fyrir að verslunarmannahelgin hafi verið óvenjuleg í ár virðast Íslendingar hafa skemmt sér vel á tjaldsvæðum víða um land. Umsjónarmaður á tjaldsvæðinu Hömrum á Akureyri segir talsverðan eril hafa verið þar í gærkvöldi og í nótt.

Tjaldverðir þurftu að hafa afskipti af gestum svæðisins sem ekki virtu næturfrið. Tryggvi Marínósson, umsjónarmaður svæðisins segir aðal vandamálið þó hafa verið fjöldi fólks sem reyndi að smygla sér inn á svæðið í gær og í nótt.

„Fólk sem var að koma úr bænum í partý því það var lokað klukkan 12 í bænum. Þá var fólk að reyna komast hingað inn í partý. Sumir gestirnir okkar líta á þetta sem útihátíðarsvæði sem það er ekki, þetta er tjaldsvæði.“

Hann segir tjaldverði hafa átt í nægu að snúast í gærkvöldi og í nótt.

„Það voru svona sjö eða átta verðir sem voru bara í því í alla nótt að eiga við þá sem voru með læti og þá sem ekki áttu að vera hérna.“

Tíu stígar liggja inn á svæðið og því þurfti að kalla til næturvarða af tjaldsvæðinu á Þórunnarstræti til þess að hægt væri að vakta alla innganga. 

„Það var miklu rólegra á Þórunnarstrætinu. Það gekk betur þar því þar er náttúrlega styttra í bæinn og þar löbbuðu þeir bara í bæinn sem ætluðu að djamma og svo varð bara rólegt eftir það.“

Rétt undir átta hundruð manns hafa dvalið á svæðinu um helgina í nokkrum sóttvarnahólfum. Tryggvi á von á því að margir gestir yfirgefi svæðið í dag en segir starfsfólk þó vera vel undirbúið fyrir kvöldið.

„Þetta er búið að vera svolítið erfitt. Þetta er einhvern veginn allt öðruvísi verslunarmannahelgi heldur en ég hef upplifað í mörg mörg ár. En það náttúrlega vantaði einhvers staðar útihátíð á landinu- það er greinilegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×