Fótbolti

Elías Már á leið í frönsku B-deildina

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elías Már er á leið í frönsku B-deildina eftir þrjú tímabil með Excelsior.
Elías Már er á leið í frönsku B-deildina eftir þrjú tímabil með Excelsior. Angelo Blankespoor/Soccrates/Getty Images

Keflvíkingurinn Elías Már Ómarsson er að ganga í raðir franska B-deildarliðsins Nimes frá hollenska liðinu Excelsior.

Umboðsmaðurinn Ólafur Garðarsson staðfestir þetta við mbl.is fyrr í dag, en talið er að kaupverðið sé í kringum 70-80 milljónir íslenskra króna. Að sögn Ólafs verður gengið frá kaupunum á næstu tveim sólarhringum.

Elías hefur leikið undanfarin þrjú tímabil með Excelsior, það fyrsta í efstu deild þar sem hann skoraði átta mörk í 25 leikjum. Samtals hefur hann skorað 42 mörk í 90 leikjum og var næst markahæsti leikmaður hollensku B-deildarinnar á seinasta tímabili með 22 mörk.

Þessi 26 ára framherji á enn eitt tímabil eftir af samningi sínum við Excelsior. Hann á að baki níu A-landsleiki.

Nimes leikur í frönsku B-deildinni eftir að hafa fallið úr efstu deild á seinasta tímabili þar sem að liðið lenti í næst neðsta sæti. Liðið er gamalgróið með mikla hefð og stefnir beint aftur upp í deild þeirra bestu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×