Íslenski boltinn

Öruggir sigrar ÍBV og Þórs

Valur Páll Eiríksson skrifar
Eyjamenn unnu góðan 4-1 sigur eftir að hafa lent undir.
Eyjamenn unnu góðan 4-1 sigur eftir að hafa lent undir.

Tveir leikir voru á dagskrá í Lengjudeild karla í fótbolta í kvöld. ÍBV og Þór unnu þar bæði örugga heimasigra.

ÍBV tók á móti Grindavík í Vestmannaeyjum en aðeins þrjú stig skildu liðin að fyrir leik. ÍBV var í öðru sæti með 23 stig en Grindavík tveimur sætum neðar með 20 stig.

Því var um að ræða mikilvægan leik í toppbaráttunni. Englendingurinn Dion Acoff skoraði fyrir Grindavík á 37. mínútu og gaf gestunum með því 1-0 forystu í leikhléi.

Eyjamenn virðast hins vegar hafa tekið sig saman í andlitinu í hléi þar sem þeir skoruðu fjögur mörk gegn engu í síðari hálfleiknum. Sito, Guðjón Pétur Lýðsson, Stefán Ingi Sigurðarson og Tómas Bent Magnússon skoruðu eitt mark hver og tryggðu Eyjamönnum þannig 4-1 sigur.

ÍBV er því með 26 stig í öðru sætinu, sex stigum á eftir toppliði Fram sem á leik inni. Grindavík er sem fyrr eð 20 stig en fer niður fyrir Fjölni í fimmta sæti vegna lakari markatölu eftir tap kvöldsins. Vinni Vestri sinn leik í umferðinni fara þeir upp fyrir Grindavík, þar sem þeir eru með 19 stig í sjöunda sæti.

Á Akureyri tók Þór á móti Gróttu. Aðeins eitt stig skildi liðin að í töflunni, Grótta var með 17 stig í sjöunda sæti en Þór með stigi minna, sæti neðar.

Þegar 55 mínútur voru liðnar af leiknum höfðu Þórsarar komist 4-0 yfir eftir tvö mörk Ásgeirs Marinó Baldvinssonar sitt hvort markið frá Jóhanni Helga Hannessyni og Fannari Daða Malmquist Gíslasyni.

Grótta svaraði með tveimur mörkum frá Kjartani Kára Halldórssyni og Pétri Theódóri Árnasyni en gátu ekki komið í veg fyrir 4-2 tap. Þór fer með sigrinum upp í sjötta sæti deildarinnar, upp fyrir Gróttu og Vestra, en líkt og fram kemur að ofan á Vestri leik inni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×