Umfjöllun og viðtöl: Víkingur - Stjarnan 3-2 | Víkingssigur þrátt fyrir tvist frá Oliver

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Atli Barkarson lagði upp tvö mörk í sigri Víkings á Stjörnunni.
Atli Barkarson lagði upp tvö mörk í sigri Víkings á Stjörnunni. vísir/bára

Víkingur vann 3-2 sigur á Stjörnunni á heimavelli í kvöld og eltir Val eins og skugginn í toppbaráttu Pepsi Max-deildar karla.

Stjörnumenn komust yfir með glæsimarki Olivers Hauritis með skoti fyrir aftan miðju en Víkingar svöruðu með þremur mörkum. Nikolaj Hansen skoraði tvö skallamörk og Helgi Guðjónsson eitt. Emil Atlason minnkaði muninn í uppbótartíma en nær komust gestirnir úr Garðabæ ekki.

Víkingur er í 2. sæti deildarinnar með 29 stig, einu stigi á eftir toppliði Vals. Stjarnan er í 10. sætinu með þrettán stig.

Eftir jafnar upphafsmínútur kom Oliver Stjörnunni yfir með sannkölluðu draumamarki á 8. mínútu. Hann fékk þá boltann inni á sínum eigin vallarhelmingi, losaði sig frá Kára Árnasyni, leit upp og lét svo vaða. Boltinn fór yfir Þórð Ingason sem var alltof framarlega og í netið.

Eftir þetta tóku Víkingar leikinn yfir. Oliver átti reyndar ágætis skot á 16. mínútu sem Þórður varði en annars voru heimamenn ráðandi.

Nikolaj var ógnandi og á 31. mínútu fékk hann úrvalsfæri eftir fyrirgjöf Viktors Örlygs Andrasonar en skallaði framhjá. Tveimur mínútum síðar varði Haraldur Björnsson aukaspyrnu Loga Tómassonar.

Á 36. mínútu jafnaði Nikolaj metin. Kristall Máni Ingason átti fyrirgjöf á Danann sem kastaði sér fram og skallaði boltann í fjærhornið.

Víkingar voru áfram sterkari aðilinn í seinni hálfleik og strax á annarri mínútu hans kom Nikolaj þeim yfir með skalla eftir fyrirgjöf Atla Barkarsonar. Skallinn var ekkert sérstakur en Haraldur Björnsson varði boltann inn. Haraldur þurfti svo að fara af velli vegna meiðsla eftir samstuð við Nikolaj og var fluttur af Víkingsvellinum í sjúkrabíl.

Á 69. mínútu átti Atli sendingu inn fyrir vörn Stjörnunnar, Daníel Laxdal missti af Helga sem skoraði með skemmtilegu skoti framhjá Arnari Darra Péturssyni sem átti afar illa tímasett úthlaup.

Undir lokin komst loks smá kraftur í Stjörnumenn. Hilmar Árni Halldórsson fékk gott færi en skaut í samherja sinn, Þorstein Má Ragnarsson.

Á þriðju mínútu uppbótartíma bjuggu svo tveir af varamönnum Stjörnunnar til mark. Óli Valur Ómarsson sendi fyrir frá hægri á nærstöngina þar sem Emil var fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið. Nær komust gestirnir hins vegar ekki og heimamenn fögnuðu verðskulduðum sigri.

Af hverju vann Víkingur?

Víkingar voru mun sterkari aðilinn í leiknum þótt þeir hafi orðið helst til værukærir undir lokin. Eftir draumamark Olivers tóku heimamenn öll völd á vellinum og héldu þeim þar til í blálokin. Víkingar voru mun frískari og virkuðu hreinlega í betra formi en Stjörnumenn.

Hverjir stóðu upp úr?

Nikolaj var alltaf líklegur, skoraði tvö skallamörk og er kominn með þrettán mörk í Pepsi Max-deildinni, þremur mörkum meira en næsti maður. Atli heldur áfram að spila vel og lagði upp tvö mörk. Kristall Máni Ingason átti góðan leik í þeim þremur stöðum sem hann leysti og Júlíus Magnússon var flottur á miðjunni.

Oliver skoraði glæsilegt mark og lét mikið að sér kveða í upphafi leiks. Minna bar svo á honum í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

Stjarnan fékk draumabyrjun en eftir það gat liðið lítið fyrir utan smá dauðakippi í lokin. Stjörnumenn fengu á sig tvö mörk eftir fyrirgjafir og varnarleikurinn í þriðja markinu var ekki heldur merkilegur. Stjörnuliðið lítur ekki vel út en sem betur fer fyrir það eru tvö slakari lið í deildinni.

Hvað gerist næst?

Liðin fá núna ágætis hvíld. Þriðjudaginn 3. ágúst sækir Víkingur Breiðablik heim og daginn eftir fær Stjarnan ÍA í heimsókn.

Arnar: Lögðum grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik

Arnari Gunnlaugssyni fannst sínir menn spila mjög vel í fyrri hálfleik.vísir/hulda margrét

Víkingar voru sterkari aðilinn lengst af en Stjörnumenn hleyptu spennu í leikinn með marki í uppbótartíma.

„Manni leið ekkert vel þegar staðan var orðin 3-2 og lítið eftir. Það hefði verið súrt að missa þetta niður því mér fannst við mjög góðir í kvöld. Við lögðum grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik þar sem við létum boltann ganga gríðarlega vel. Svo kláruðum við þetta í byrjun seinni hálfleiks,“ sagði Arnar eftir leik.

„Stjarnan barðist mjög vel og kom sér aftur inn í leikinn. Það var örugglega ekkert skemmtilegt fyrir þá að spila seinni hálfleikinn eftir að félagi þeirra fór út af,“ sagði Arnar og vísaði til þess þegar Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, þurfti að fara af velli vegna meiðsla. Hann var fluttur af Víkingsvelli í sjúkrabíl.

„Kredit á þá fyrir að sýna þennan sterka karakter en við vorum klaufar að ganga ekki frá leiknum. Ég veit ekki hvað við fengum marga möguleika til að bæta við fjórða markinu. En fyrst og síðast er ég hrikalega ánægður með sigurinn því það er erfitt að lenda undir gegn liði eins og Stjörnunni.“

Garðbæingar komust yfir með draumamarki Olivers Haurits á 8. mínútu. Hann skoraði þá með skoti fyrir aftan miðju.

„Ég stóð mig að því klappa fyrir því marki. Það var svo einstaklega vel gert hjá danska framherjanum,“ sagði Arnar.

„En við vorum flottir. Mér fannst við leggja grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik.“

Þorvaldur: Vildi ekkert svara nema í tölvupósti

Strákunum hans Þorvaldar Örlygssonar hefur ekki gengið vel að undanförnu.vísir/hulda margrét

Þorvaldur Örlygsson, þjálfari Stjörnunnar, var súr að fara stigalaus úr Víkinni.

„Það er svekkjandi að fá ekkert út úr þessu og tapa. Að fá á sig mark í í andlitið í byrjun seinni hálfleiksins, mér fannst við geta lokað því og stöðvað fyrirgjöfina,“ sagði Þorvaldur.

„En síðan komumst við aðeins betur inn í leikinn, minnkuðum muninn í 3-2, vissulega stutt eftir en það er alltaf möguleiki.“

Haraldur Björnsson, markvörður Stjörnunnar, þurfti að fara af velli í seinni hálfleik og var fluttur á brott í sjúkrabíl.

„Við misstum markvörðinn út af og það er margt sem gengur ekki upp þessa dagana og vikurnar. En leikmenn héldu áfram að reyna og börðust þótt það hafi ekki allt gengið upp,“ sagði Þorvaldur.

Þorvaldur lét dómara leiksins heyra það í leikslok en hann var ósáttur við að leikurinn hafi ekki verið stöðvaður þegar Emil Atlason lá eftir.

„Okkar maður, framherjinn, féll niður með höfuðmeiðsli og útskýringarnar sem við fengum voru mjög skrítnar. Ég var ekkert óánægður. Ég vildi bara fá útskýringu en hann vildi ekki svara nema í tölvupósti,“ sagði Þorvaldur að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira