Innlent

Öll sýni neikvæð á Grund

Eiður Þór Árnason skrifar
Deild A2 er í austurhluta hússins og hafa nærliggjandi deildir einnig verið lokaðar af.
Deild A2 er í austurhluta hússins og hafa nærliggjandi deildir einnig verið lokaðar af. Vísir/Vilhelm

Öll sýni sem tekin voru hjá íbúum og starfsfólki á hjúkrunarheimilinu Grund eftir að smit greindist hjá starfsmanni reyndust neikvæð. 

Starfsmenn og heimilismenn á deild A2 voru sendir í skimun í gær eftir að starfsmaður deildarinnar greindist með Covid-19 á mánudag. Sá hafði síðast mætt til vinnu á fimmtudag.

Sigríður Sigurðardóttir, sviðsstjóri á fræðslu- og gæðasviði, segir niðurstöðuna vera mikinn létti. Ekki er talin ástæða til að senda fólkið í seinni skimun í ljósi þess hve langur tími leið frá því að fólkið átti samskipti við sýkta einstaklinginn. 

Lokað var fyrir heimsóknir á deildum A1, A2 og A3 í austurhluta hjúkrunarheimilisins eftir að smitið kom upp. Þá var starfsfólk sett í svonefnda sóttkví C og gert að halda sig heima þegar það var ekki í vinnu.

Fulltrúar almannavarna munu funda með forsvarsmönnum allra hjúkrunarheimila í dag til að ræða viðbrögð þeirra vegna fjölgunar kórónuveirusmita síðustu daga. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×