Enski boltinn

Leikmenn unglingaliðs Portsmouth til rannsóknar vegna rasisma eftir úrslitaleikinn á EM

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Portsmouth leikur í ensku C-deildinni.
Portsmouth leikur í ensku C-deildinni. getty/Phil Cole

Leikmenn unglingaliðs Portsmouth eru til rannsóknar vegna rasískra ummæla sem sumir þeirra létu falla eftir úrslitaleik EM.

England tapaði fyrir Ítalíu í vítakeppni í úrslitaleiknum þar sem Marcus Rashford, Jadon Sancho og Bukayo Saka klikkuðu á sínum spyrnum. Í kjölfarið urðu þeir fyrir kynþáttafordómum á samfélagsmiðlum.

Nokkrir leikmenn unglingaliðs Portsmouth eru grunaðir um að hafa látið rasísk ummæli falla í hópspjalli liðsins. 

Skjáskot af spjallinu rötuðu á samfélagsmiðla og það vakti athygli lögreglunnar í Hampshire. Hún hefur tekið málið til rannsóknar og vinnur með Portsmouth að rannsókn þess. 

„Það er ekkert pláss fyrir hatur eða fordóma af neinu tagi hjá Portsmouth eða öðrum samtökum sem ég tengist. Við látum þetta ekki viðgangast og það verða viðeigandi afleiðingar fyrir hvern þann sem gerist sekur um rasisma á samfélagsmiðlum eða öðrum stöðum,“ skrifaði Michael Eisner, eigandi Portsmouth, á Twitter.

Kynþáttafordómarnir sem Rashford, Sancho og Saka urðu fyrir hafa víða verið fordæmdir, meðal annars á breska þinginu.

Skemmdarverk voru unnin á veggmynd af Rashford í Manchester en hún var löguð með jákvæðum skilaboðum til framherjans. Um sjö hundruð manns söfnuðust svo saman við veggmyndina á þriðjudaginn til að sýna Rashford stuðning.

Þá lét Sportbible gera risastóra veggmynd af þeim Rashford, Sancho og Saka í Manchester.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×