Tónlist

Á­kvað á innan við klukku­tíma að taka Brekku­sönginn

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Magnús Kjartan hefur talsverða reynslu af tónleikaspili á Þjóðhátíð. Hann mun sjá um Brekkusönginn í ár en hljómsveitin hans, Stuðlabandið, mun einnig halda uppi stemningunni í dalnum að loknum Brekkusöngi.
Magnús Kjartan hefur talsverða reynslu af tónleikaspili á Þjóðhátíð. Hann mun sjá um Brekkusönginn í ár en hljómsveitin hans, Stuðlabandið, mun einnig halda uppi stemningunni í dalnum að loknum Brekkusöngi. Þjóðhátíðarnefnd

Magnús Kjartan Eyjólfsson, forsöngvari og gítarleikari Stuðlabandsins, mun fara með umsjón Brekkusöngsins á Þjóðhátíð í Eyjum í ár. Tilkynnt var um þetta í morgun en að sögn Harðar Orra Grettissonar, formanns Þjóðhátíðarnefndar, var Magnús fyrsti kostur eftir að tilkynnt var að Ingólfur Þórarinsson myndi ekki sjá um að halda uppi stuði í Herjólfsdal þann 1. ágúst næstkomandi.

Magnús er mikill reynslubolti en hann hefur farið víða um land og spilað með hljómsveit sinni, Stuðlabandinu, ásamt því að leika sem trúbador. Hann mun ekki aðeins sjá um Brekkusönginn því til stendur að Stuðlabandið troði upp og haldi uppi stemningu í dalnum eftir að Brekkusöngnum lýkur.

„Stuðlabandið verður með dansiball seinna um sunnudagskvöldið. Ég fæ nú kannski að hoppa aðeins niður og fá mér einn eða tvo kaffibolla og slappa af. Svo er ég að hugsa að vera í dalnum með fjölskyldunni og njóta. Við erum að taka börnin í fyrsta skiptið og mig langar líka að upplifa þeirra fyrstu Þjóðhátíð,“ segir Magnús í samtali við fréttastofu.

Magnús spjallaði einnig um Brekkusönginn við Bítið á Bylgjunni í morgun. Hægt er að hlusta á viðtalið við hann þar í spilaranum hér að neðan. 

Hann segir tækifærið leggjast vel í sig. Þjóðhátíðarnefnd hafi haft samband við hann í síðustu viku og boðið honum að sjá um Brekkusönginn. Það hafi ekki tekið hann langan tíma að skella sér á boðið.

„Ég sagðist ætla að fá aðeins að hugsa þetta og ég hringdi aftur eftir að ég talaði við konuna mína og skellti mér á þetta. Ég spurði hana Sigríði mína hvort við ættum að skella okkur í þetta og hún sagði: Já, þú getur gert þetta. Ég held að þetta hafi verið svona tuttugu mínútur, hálftími sem við ræddum þetta og svo hringdi ég bara til baka,“ segir Magnús.

Magnús hefur spilað sex sinnum á Þjóðhátíð með hljómsveit en sjálfur er hann mikill Þjóðhátíðarmaður og hefur varla tölu á því hvað hann hefur mætt oft á hátíðina. Það sé á bilinu tíu til tuttugu sinnum. Hann segist þó enga almennilega tengingu við Vestmannaeyjar hafa.

„Nei, í rauninni ekki. Ég á skyldfólk og ættmenni þarna eins og flestir á Íslandi. Annað en að þykja Vestmannaeyjar góður staður til að vera á þá hef ég ekki mikla skyldleikatengingu. Mér líður þónokkuð vel á þessari eyju og þaðan á ég góðar minningar,“ segir Magnús.

Ætlar þú að sækja í reynslu Ingós?

„Ég veit ekki hvort ég sæki í hans reynslu sérstaklega en sæki frekar í mína eigin reynslu hvað þetta varðar. En maður skoðar hvað þeir hafa verið að gera,“ segir Magnús.

Hann segir að lagalistinn verði ekki mikið mál. Brekkusöngur sé í grunninn frekar svipaður, sama hvar hann er.

„Þetta eru rosa mikið sömu lögin hjá öllum sem eru í þessu. Ég á eftir að setjast vel og vandlega yfir hvað ég mun taka þarna,“ segir Magnús.

Magnús segist bíða spenntur eftir 1. ágúst.

„Það er fiðringur, sá allra stærsti. En ég vona að ég nái að vera mér og mínum til sóma þarna og skemmta fólkinu fyrst og fremst,“ segir Magnús. Vel komi til greina af hans hálfu að taka að sér Brekkusönginn á næstu hátíðum.

„Ég hugsa að það kæmi til greina eins og allt annað en við skulum klára þennan og sjá hvernig þetta gengur og ákveða svo annað í framhaldinu.“

Hversu spenntur ertu á skalanum 1-10?

„Ég er alveg tíu ellefu. En þetta er stund fólksins.“


Tengdar fréttir

Segir nefndina hafa vitað af á­sökunum þegar hún réð Ingó

Tryggvi Már Sæ­munds­son, rit­stjóri Eyja­r.net sem hefur safnað undir­skriftum til að mót­mæla því að Ingólfur Þórarins­son hafi verið af­bókaður af Þjóð­há­tíð, segir að þjóð­há­tíðar­nefnd hafi þegar vitað að Ingó væri um­deildur þegar hún réð hann til að sjá um brekku­sönginn.

Þórólfur neitar að taka við brekkusöngnum

Eftir að brekkusöng Ingólfs Þórarinssonar var aflýst á Þjóðhátíð í vikunni upphófst nokkur umræða um það hver ætti að hlaupa í skarðið. Á meðal tillagna sem kom fram var að sjálfur sóttvarnalæknir tæki við brekkusöngnum, enda bæði Eyjamaður og lunkinn gítarleikari.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×