Fótbolti

Grealish gaf ungum stuðningsmanni skóna sína eftir úrslitaleikinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Skórnir sem Jack Grealish spilaði í úrslitaleik EM eru nú í eigu ungs stuðningsmanns enska landsliðsins.
Skórnir sem Jack Grealish spilaði í úrslitaleik EM eru nú í eigu ungs stuðningsmanns enska landsliðsins. getty/Mike Egerton

Þrátt fyrir að Jack Grealish vilji eflaust gleyma tapinu fyrir Ítalíu í úrslitaleik EM sem fyrst gerði hann leikdaginn ógleymanlegan fyrir ungan stuðningsmann Englands.

Grealish kom inn á sem varamaður í framlengingunni en tókst ekki að setja mark sitt á leikinn. Úrslitin réðust í vítaspyrnukeppni þar sem ítalska liðið hafði betur, 3-2.

Eftir leikinn fór Grealish upp í stúku á Wembley og lét ungan stuðningsmann Englands hafa skóna sína. Hann spjallaði einnig við strákinn og stillti sér upp á myndum með honum. Stuðningsmaðurinn ljómaði skiljanlega eins og sól í heiði þótt liðið hans hafi tapað úrslitaleiknum.

Roy Keane gagnrýndi Grealish fyrir að taka ekki víti í vítakeppninni. Grealish svaraði fyrir sig á Twitter og sagðist hafa boðist til að fara á punktinn en hann hafi ekki verið valinn í verkið.

„Ég sagðist vilja taka víti!!!!“ skrifaði Grealish á Twitter og var greinilega ekki skemmt „Stjórinn [Gareth Southgate] hefur tekið svo margar réttar ákvarðanir gegnum mótið og gerði það í kvöld. En ég læt fólk ekki segja að ég hafi ekki viljað taka víti þegar ég sagðist vilja gera það.“

Grealish, sem er fyrirliði Aston Villa, kom við sögu í fimm af sjö leikjum Englands á EM og lagði upp tvö mörk.

Hinn 25 ára Grealish hefur verið sterklega orðaður við Manchester City undanfarnar vikur en Englandsmeistararnir ku vera reiðubúnir að borga metverð fyrir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×