Fótbolti

Sendi dæmigerða Zlatans-kveðju til hetju Ítala

Sindri Sverrisson skrifar
Gianluigi Donnarumma varði tvær vítaspyrnur gegn Englendingum og ein fór í stöngina og framhjá. Hann fékk að kyssa Evrópumeistarabikarinn eftir leik.
Gianluigi Donnarumma varði tvær vítaspyrnur gegn Englendingum og ein fór í stöngina og framhjá. Hann fékk að kyssa Evrópumeistarabikarinn eftir leik. AP og @iamzlatanibrahimovic

Zlatan Ibrahimovic óskaði „sínu öðru heimalandi“ til hamingju með Evrópumeistaratitilinn eftir að Ítalía vann England í úrslitaleik EM í fótbolta.

Hinn sænski Zlatan hefur spilað á Ítalíu stóran hluta síns ferils, með Juventus, Inter og AC Milan. Þessi 39 ára gamli framherji sneri aftur til AC Milan síðasta sumar og varð þannig liðsfélagi Gianluigi Donnarumma, landsliðsmarkvarðar Ítalíu.

Hinn 22 ára gamli Donnarumma fékk aðeins tvö mörk á sig í vítaspyrnukeppninni gegn Englandi í gærkvöld og varði tvær spyrnur. Hann fékk sömuleiðis aðeins á sig tvö mörk í vítaspyrnukeppninni gegn Spáni í undanúrslitum.

„Eitt ár með mér og þú ert orðinn meistari. Ekkert að þakka,“ skrifaði Zlatan í Instagram-sögu með mynd af Donnarumma, hógvær að vanda.

Zlatan Ibrahimovic er á því að Donnarumma hafi grætt á því að vera á æfingum með Svíanum.Getty

Zlatan skaut einnig á þá sem hafa gagnrýnt ítalska boltann síðustu ár. „Ekki slæmt að spila í seríu A,“ skrifaði Svíinn.

Zlatan missti af EM vegna hnémeiðsla en vonir standa til þess að hann nái upphafi nýs tímabils með AC Milan. Þar mun hann þó ekki spila áfram með Donnarumma því markvörðurinn hefur náð samkomulagi við PSG í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×