Fótbolti

Gáfu Saka tíu í einkunn fyrir frammistöðuna í úrslitaleiknum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Bukayo Saka niðurlútur eftir að hafa klúðrað síðastu spyrnu Englands í vítakeppninni gegn Ítalíu.
Bukayo Saka niðurlútur eftir að hafa klúðrað síðastu spyrnu Englands í vítakeppninni gegn Ítalíu. getty/Shaun Botterill

Sky Sports sýndi Bukayo Saka stuðning með táknrænum hætti eftir tap Englands fyrir Ítalíu í úrslitaleik EM í gær.

Hinn nítján ára Saka kom inn á sem varamaður þegar tuttugu mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma, í stöðunni 1-1. Fleiri mörk voru ekki skoruð í leiknum og því réðust úrslitin í vítakeppni.

Saka tók síðustu spyrnu Englands og þurfti að skora til að jafna og senda vítakeppnina í bráðabana. Gianluigi Donnarumma varði hins vegar spyrnu Arsenal-mannsins og tryggði ítalska liðinu Evrópumeistaratitilinn.

Þrátt fyrir vítaklúðrið fékk Saka hæstu einkunn hjá Sky Sports eftir leikinn í gær, eða tíu.

„Það væri hægt að tala um hvernig spilamennska Englands batnaði eftir að hann kom inn á og leikkerfinu var breytt. En eina einkuninn sem er þess virði að gefa er viðurkenning á því að stíga fram á spennuþrungnasta augnabliki sem til er, nítján ára strákur sem hafði varla spilað fyrir þjóð sína fyrr en á þessu ári og hafði aldrei tekið víti fyrir sitt félagslið, og taka síðasta vítið þegar margir af reyndari samherjum hans sátu hjá. England hefði ekki átt að setja unglinginn nálægt þessari stöðu,“ segir í umsögn Sky Sports.

Fyrir utan Saka fengu markvörðurinn Jordan Pickford og miðverðirnir John Stones og Harry Maguire hæstu einkunn hjá Sky Sports fyrir frammistöðu sína, eða átta. Mason Mount fékk lægstu einkunn ensku leikmannanna, eða fjóra. Fyrirliðinn Harry Kane fékk fimm líkt og varamennirnir Jordan Henderson og Jack Grealish.

Eftir leikinn varð Saka fyrir kynþáttaníði á samfélagsmiðlum líkt og Sancho og Rashford. Enska knattspyrnusambandið, félög leikmannanna, blaðamenn og fleiri hafa fordæmt ummælin.

Saka hefur leikið níu landsleiki fyrir England og skorað eitt mark. Það kom gegn Austurríki í aðdraganda EM.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×