Fótbolti

Dýrkeyptar skiptingar Southgate

Valur Páll Eiríksson skrifar
Sancho og Rashford tókst hvorugum að skora af punktinum.
Sancho og Rashford tókst hvorugum að skora af punktinum. Carl Recine - Pool/Getty Images

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, gerði tvær dýrkeyptar skiptingar undir lok framlengingar í úrslitaleik Evrópumótsins gegn Ítölum í kvöld. Ítalir unnu 3-2 eftir vítaspyrnukeppni þar sem varamenn Southgate klikkuðu.

Luke Shaw kom Englendingum yfir snemma leiks í kvöld en Leonardo Bonucci jafnaði fyrir Ítali í síðari hálfleik. 1-1 stóð frá þeim tíma allt þar til framlengingu lauk.

Undir lok framlengingarinnar gerði Gareth Southgate tvöfalda skiptingu. Jadon Sancho og Marcus Rashford, leikmenn Manchester United, komu þá inn sem varamenn fyrir Jordan Henderson, sem hafði komið inn fyrr í leiknum, og Kyle Walker.

England var með yfirhöndina í vítakeppninni eftir mörk Harry Kane og Harry Maguire úr fyrstu tveimur spyrnunum og klúður hins ítalska Andrea Belotti. Leonardo Bonucci jafnaði 2-2 fyrir Ítali úr þriðju spyrnu þeirra áður en Rashford steig á punktinn.

Rashford skaut hins vegar í stöng og þá lét Jadon Sancho ítalska markvörðinn Gianluigi Donnarumma verja frá sér í næstu spyrnu á eftir, en Federico Bernardeschi skoraði fyrir Ítali í millitíðinni. Staðan því búin að snúast við eftir klúður þeirra tveggja sem komu sérstaklega inn á til að taka víti.

Jordan Pickford, markvörður Englands, varði næstu spyrnu frá Jorginho úr Ítalíu sem gaf Englandi von, en Donnarumma varði aðra spyrnuna í röð, frá þeim unga Bukayo Saka, og unnu Ítalir því 3-2 í vítakeppninni og Evróputitillinn vís.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×