Erlent

Kven­her­menn í Úkraínu fá þægi­legri hæla­skó

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Hér má sjá tvo úkraínska hermenn í háum hælum árið 1997.
Hér má sjá tvo úkraínska hermenn í háum hælum árið 1997. EPA/SERGEI SUPINSKY

Varnarmálaráðuneyti Úkraínu hefur tilkynnt að kvenkyns hermenn muni fá „þægilegri“ hælaskó til að klæðast eftir að ráðuneytið var gagnrýnt harðlega fyrir að láta herkonurnar marséra í háum hælum.

Kvenkyns hermönnum var tilkynnt á dögunum að þær þyrftu að klæðast háhæluðum skóm í herskrúðgöngu í tilefni af 30 ára sjálfstæði landsins. Skrúðgangan fer fram þann 24. ágúst næstkomandi en gagnrýnendur vilja meina að skórnir ógni heilsu hermannanna. Fréttastofa CNN greinir frá.

Í stað þess að verða við kröfu gagnrýnenda, um að leyfa herkonunum að vera í venjulegum hermannaskóm, ákvað Andriy Taran, varnarmálaráðherra, að breyta hælunum svo þeir verði þægilegri.

Skórnir sem konurnar verða í munu vera fóðraðir með efni sem halda skónum betur á fæti þegar konurnar marséra. Þá verða hælarnir minnkaðir örlítið samkvæmt tilkynningu frá varnarmálaráðuneytinu.

Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að skónum hafi verið tekið opnum örmum af kvenhermönnum og að líklegt sé að hælaskórnir verði hluti af hátíðarbúningi kvenhermanna í landinu.

Ákvörðun um að kvenhermenn skyldu klæðast hælaskóm var upprunalega tekin árið 2017 að sögn Tarans en hún hefur vakið mikla reiði. Meðal gagnrýnenda hafa verið kvenþingmenn sem hafa sakað varnarmálaráðherrann um að stefna lífi kvenhermannanna í hættu. Taran svaraði því til að „sum pólitísk öfl séu að reyna að gera úlfalda úr mýflugu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×