Erlent

Heita því að vista Assange ekki við verstu aðstæður og leyfa honum að afplána í Ástralíu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Assange er sagður við afar bága heilsu en hann situr enn í bresku fangelsi og mun gera það þar til endanlegur úrskurður í framsalsmálinu liggur fyrir.
Assange er sagður við afar bága heilsu en hann situr enn í bresku fangelsi og mun gera það þar til endanlegur úrskurður í framsalsmálinu liggur fyrir. epa/Vickie Flores

Bandarísk stjórnvöld hafa heitið því að vista Julian Assange ekki við verstu aðstæður ef hann fæst framseldur frá Bretlandi. Þá yrði honum heimilað að afplána mögulegan dóm í heimalandi sínu, Ástralíu.

Þetta kemur fram í gögnum sem voru lögð fram í aðdraganda þess að breskur dómstóll gaf bandarískum yfirvöldum heimild til að áfrýja niðurstöðu frá því í janúar, þegar annar dómstóll neitaði að samþykkja framsal, meðal annars á þeirri forsendu að aðstæður í svokölluðum hámarksgæslufangelsum í Bandaríkjunum væru ómannúðlegar.

Heilsufar Assange er sagt afar bágt og óttast um líf hans ef hann verður framseldur.

Í gögnunum, sem New York Times hefur undir höndum, segir að bandarísk stjórnvöld hafi komið til móts við áhyggjur dómarans sem hafnaði framsalskröfunni í janúar. Assange yrði til að mynda ekki neitað um samband við umheiminn og þá yrði honum ekki haldið í hámarksöryggisgæslufangelsinu í Florence í Ohio, nema hann gerði eitthvað til að verðskulda það.

Þá segjast bandarísk yfirvöld munu samþykkja að Assange afpláni mögulegan dóm í Ástralíu.

Assange er bæði ákærður fyrir að hafa aðstoðað uppljóstrarann Chelsea Manning við að komast yfir leynileg gögn og senda þau til WikiLeaks og fyrir að birta gögnin. 

Seinna ákæruefnið gæti haft það í för með sér að fordæmi verði til fyrir því að dæma menn og fangelsa fyrir að birta leynileg gögn; það er fyrir að stunda blaðamennsku, óháð því hvort menn telja Assange blaðamann eða ekki en um það er deilt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×