Fótbolti

Chiellini grínaðist í Alba fyrir víta­spyrnu­keppnina í gærkvöldi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Giorgio Chiellini tekur hér í höndina á Jordi Alba fyrir vítaspyrnukeppnina.
Giorgio Chiellini tekur hér í höndina á Jordi Alba fyrir vítaspyrnukeppnina. AP/Matt Dunham

Það var mikil spenna í loftinu á Wembley í gærkvöldi þegar ljóst var að úrslitin í undanúrslitaleik Ítala og Spánverja myndu ráðast í vítaspyrnukeppni. Einn maður var þó óvenju léttur.

Giorgio Chiellini, fyrirliði Ítalíu, grínaðist nefnilega í Jordi Alba fyrir vítaspyrnukeppnina þegar þeir hittu dómara leiksins til að finna út hvort liðið myndi taka fyrstu spyrnuna og hvort markið væri notað.

Jordi Alba er ekki fyrirliði spænska liðsins en hann tók við fyrirliðabandinu þegar Sergio Busquets var tekinn af velli.

Chiellini var alveg hoppandi kátur þegar flestir virtist vera að farast úr spennu og það var magnað að sjá kappann bregða á leik þegar aðeins nokkrar mínútur væru í það að hann fékk að vita hvort að hann færi í úrslitaleik EM eða ekki.

Giorgio Chiellini er 36 ára gamall og hefur þegar tapað einum úrslitaleik á EM á móti Alba en það var árið 2012. Chiellini var ekki með Ítölum þegar þeir unnu heimsmeistaratitilinn sumarið 2006.

Alba var ekki alveg eins léttur og Chiellini en það fór samt ágætlega á milli þeirra.

Hér fyrir neðan má sjá myndband þegar Chiellini grínaðist í Alba fyrir vítaspyrnukeppnina.

Klippa: Chiellini grínast í Alba fyrir vítaspyrnukeppnina




Fleiri fréttir

Sjá meira


×