Fótbolti

Endur­lifðu EM-dramatík gær­kvöldsins með því að sjá mörkin og víta­­keppnina

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ítölsku leikmennirnir fagna hver á sinn hátt eftir að Jorginho hafði tryggt þeim sigur í vítaspyrnukeppninni.
Ítölsku leikmennirnir fagna hver á sinn hátt eftir að Jorginho hafði tryggt þeim sigur í vítaspyrnukeppninni. AP/Carl Recine

Ítalir eru komnir í úrslitaleik Evrópukeppninnar í fótbolta eftir sigur á Spánverjum í vítakeppni í undanúrslitaleik þjóðanna á Wembley.

Ítalir mæta annað hvort Englandi eða Danmörku í úrslitaleiknum á sunnudaginn en hinn undanúrslitaleikurinn verður spilaður í kvöld.

Ítalir komust yfir í leiknum sjálfum en Spánverjar jöfnuðu. Federico Chiesa skoraði mark Ítala á 60. mínútu en varamaðurinn Álvaro Morata jafnaði metin tíu mínútum fyrir leikslok.

Ítalir klikkuðu síðan á fyrstu vítaspyrnu sinni í vítakeppninni en það kom ekki að sök því Spánverjar gerðu það líka.

Jorginho tryggði ítalska liðinu síðan sæti í úrslitaleiknum með því að skora að öryggi úr síðustu spyrnunni. Áður höfðu þeir Andrea Belotti, Leonardo Bonucci og Federico Bernardeschi allir skorað fyrir Ítalíu í vítakeppninni.

Gianluigi Donnarumma, markvörður Ítalíu, varði síðan víti Spánverjans Álvaro Morata og Dani Olmo hitti ekki markið. Spánverjar fengu því ekki að taka síðustu spyrnu sína því úrslitin voru ráðin.

Hér fyrir neðan má sjá bæði mörkin í leiknum sjálfum og svo alla vítaspyrnukeppnina.

Klippa: Mörkin og vítaspyrnukeppnin þegar Ítalir komust í úrslitaleik EM




Fleiri fréttir

Sjá meira


×