Sport

Hettubannið til skoðunar eftir mikla gagnrýni

Sindri Sverrisson skrifar
Alice Dearing verður fyrst svartra sundkvenna til að keppa fyrir Bretland á Ólympíuleikum, í Tókýó. Sem stendur mætti hún ekki nota þar sundhettur sem sérhannaðar eru fyrir svart fólk.
Alice Dearing verður fyrst svartra sundkvenna til að keppa fyrir Bretland á Ólympíuleikum, í Tókýó. Sem stendur mætti hún ekki nota þar sundhettur sem sérhannaðar eru fyrir svart fólk. Getty/Clive Rose

Alþjóðasundsambandið, FINA, gæti breytt afstöðu sinni varðandi sundhettur sem sérhannaðar eru fyrir fólk með afróhár, eftir hávær mótmæli við því að hetturnar væru bannaðar á Ólympíuleikunum í Tókýó.

FINA hefur verið gagnrýnt fyrir að banna hetturnar á stórmótum og bannið sagt draga úr vilja svarts fólks til að stunda sundíþróttir. Ungt, svart sundfólk hefur lýst yfir miklum vonbrigðum vegna þessa.

Á meðal þeirra sem lagt hafa orð í belg er jamaíski sundmaðurinn Michael Gunning sem kvaðst bæði í áfalli og fyllast viðbjóði yfir banninu, sem stuðli enn frekar að því að bola svörtu sundfólki í burtu á hæsta stigi íþróttarinnar. Það sé nauðsynlegt að sýna ungu fólki að sund sé fyrir alla.

Soul Cap, sem framleiðir sundhettur sérstaklega ætlaðar fyrir fólk með þykkt eða mikið hár, sagði FINA hafa rökstutt ákvörðun sína með því að hetturnar væru ekki mótaðar að „náttúrulegu höfuðlagi“ fólks.

Samkvæmt frétt BBC ætlar FINA nú að endurskoða afstöðu sína. Í yfirlýsingu sem sambandið sendi frá sér segir að það skilji vel mikilvægi þess að öllum sé jafnvelkomið að taka þátt í íþróttinni.

„FINA er staðráðið í að tryggja að allt sundfólk geti notað sundklæðnað við hæfi í keppni, þegar sá klæðnaður veitir ekki samkeppnisforskot,“ sagði í yfirlýsingunni.

FINA mun nú fara yfir málið með forsvarsmönnum Soul Cap.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×