Fótbolti

Van Gaal gerði lítið úr hollenska karlalandsliðinu fyrir framan kvennaliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Louis van Gaal verður væntanlega næsti landsliðsþjálfari Hollendinga og hann er byrjaður að reyna að koma stjörnum landsliðsins niður á jörðina.
Louis van Gaal verður væntanlega næsti landsliðsþjálfari Hollendinga og hann er byrjaður að reyna að koma stjörnum landsliðsins niður á jörðina. EPA-EFE/ROBIN VAN LONKHUIJSEN

Einn frægasti knattspyrnuþjálfari Hollendinga skaut á fótboltalandslið þjóðarinnar eftir frammistöðu liðsins á EM alls staðar í sumar.

Karlalandslið Hollendinga í knattspyrnu datt út úr sextán liða úrslitum Evrópukeppninnar eftir tap á móti Tékkum. Kvennalandslið þjóðarinnar er aftur á móti á leiðinni á Ólympíuleikana í Tókýó seinna í þessum mánuði.

Louis van Gaal, fyrrum stjóri Manchester United, Barcelona og Bayern München, var fenginn til að tala við leikmenn kvennalandsliðsins og hann notaði karlaliðið sem dæmisögu um hvernig þær ættu ekki að gera hlutina á leikunum.

„Sjáið bara karlaliðið okkar á EM. Þar sjáum við fullt af stjörnuleikmönnum sem geta ekki unnið saman sem lið. Það er búið að láta mikið með þá en þeir geta ekki unnið ef þeir vinna ekki saman,“ sagði Louis van Gaal.

„Ég hef alltaf séð að ykkar lið, undir stjórn Sarinu [Wiegman] er lið sem fer í gegnum eld og brennistein saman. Passið bara upp á það að fara saman sem eitt lið á Ólympíuleikana og vinnið gullið,“ sagði Van Gaal.

Louis van Gaal hefur í tvígang þjálfað hollenska landsliðið, fyrst frá 2000 til 2002 og svo aftur frá 2012 til 2014. Hann hefur nú verið orðaður við liðið á ný eftir að Frank De Boer hætti með landsliðið eftir EM.

Van Gaal var hættur en virðist nú vera tilbúinn að snúa aftur til að koma hollenska landsliðinu aftur í hóp bestu landsliða Evrópu og heimsins alls.

Hollenska kvennalandsliðið er ríkjandi Evrópumeistari og vann að auki silfur á síðasta heimsmeistaramóti eftir tap á móti Bandaríkjunum í úrslitaleik. Það eru því miklar væntingar bornar til liðsins alveg eins og karlaliðsins.

Hollensku stelpurnar eru með á Ólympíuleikunum í fyrsta skiptið í sögunni en þær eru í riðli með Kína, Brasilíu og Sambíu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×