Fótbolti

Segir það hjálpa Englendingum að fara frá Wembley

Valur Páll Eiríksson skrifar
Gareth Southgate segir andlegan ferskleika vera mikilvægan á morgun.
Gareth Southgate segir andlegan ferskleika vera mikilvægan á morgun. Getty Images/Marc Atkins

Gareth Southgate, þjálfari enska karlalandsliðsins í fótbolta, segir það muni hjálpa enska liðinu að fara frá Wembley eftir 2-0 sigur liðsins á Þýskalandi í 16-liða úrslitum mótsins. England mætir Úkraínu í 8-liða úrslitum mótsins í Róm annað kvöld.

Southgate sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir leikinn í dag. Enska liðið hefur leikið alla leiki sína á mótinu til þessa á heimavelli, Wembley í Lundúnum, en fara nú í fyrsta sinn frá bresku höfuðborginni.

Langt er síðan England hefur unnið sigur á Þýskalandi á stórmóti en Southgate segir leikmenn enska liðsins hafa tekist vel á við tilfinningarnar sem fylgdu þeim sigri.

„Mér finnst leikurinn klárlega hafa tekið mikinn tilfinningalegan toll og allir nutu hans, en strax í klefanum eftir leik voru leikmennirnir farnir að tala um næsta leik og þörf þess að undirbúa sig vel.“

„Við náðum þarna að sigrast á einni áskorun en það er ekki Everest markmiðið sem við settum okkur, í raun. Við viljum byggja á þessu.“

Southgate segir þá að eftir þennan tilfinningaríka sigur á Þjóðverjum muni það koma sér vel fyrir enska liðið að komast frá Wembley.

„Ég held að sálfræðilegur ferskleiki sér lykillinn. Við erum svo auðvitað með sterkan hóp að auki.“

„Í raun, fyrir okkur, er það örugglega gott að komast aðeins burt. Það hefði verið mjög erfitt, þremur dögum síðar, að endurskapa svona stemningu á Wembley.“ segir Southgate.

Engir enskir áhorfendur verða í stúkunni á morgun þar sem ítölsk stjórnvöld settu ferðabann á fólk frá Bretlandi vegna risa í COVID-smitum í landinu.

Leikur Englands og Úkraínu hefst klukkan 19:00 annað kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 EM. Upphitun fyrir leik hefst klukkan 18:30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×