Simón hetja Spánverja gegn Sviss

Valur Páll Eiríksson skrifar
Unai Simón varði tvær spyrnur Svisslendinga og þá fór ein yfir.
Unai Simón varði tvær spyrnur Svisslendinga og þá fór ein yfir. Pool/Getty Images/Kirill Kudryavstev

Spánverjar lögðu Sviss í 8-liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta í St. Pétursborg í kvöld. Eftir 1-1 jafntefli unnu Spánverjar 3-1 í vítakeppni og eru því komnir í undanúrslit.

Svisslendingar voru án Granit Xhaka, sem hefur átt frábært mót, og það munaði um hann á miðjunni. Denis Zakaria kom inn í liðið fyrir hann og sá varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark eftir aðeins átta mínútna leik. Jordi Alba átti þá skot að marki eftir hornspyrnu sem Zakaria beindi með fætinum í eigið net.

Eftir það var fátt um færi í fyrri hálfleiknum þar sem Spánverjar stýrðu ferðinni. Svisslendingar urðu fyrir áfalli þegar Breel Embolo, sem hefur verið burðarstólpi í þeirra sóknarleik, fór meiddur af velli um miðjan hálfleikinn.

Sjálfsmark Zakaria skildi liðin hins vegar að í hléi.

Svisslendingar komu ákveðnari til leiks í síðari hálfleiknum og voru hættulegri aðilinn í leik sem var þó áfram heldur lokaður. Þeim tókst þó að jafna á 68. Mínútu leiksins eftir fína sókn sem lauk með því að Remo Freuler komst inn á spænska teiginn, varnarmenn þeirra spænsku herjuðu að honum en hann gaf boltann fyrir markið á Xherdan Shaqiri sem var einn á auðum sjó og lagði boltann með hægri fæti í stöng og inn.

Níu mínútum síðar var Freuler aftur á ferðinni þegar hann fór í glæfralega tæklingu á – og Michael Oliver, dómari leiksins, sá engan annan kost í stöðunni en að vísa honum var velli með rautt spjald. Svisslendingar léku því 10 gegn 11 það sem eftir lifði leiks.

Spánverjum gekk hins vegar bölvanlega að nýta sér liðsmuninn, sköpuðu sér lítið sem ekkert, og 1-1 staðan þegar flautað var til leiksloka. Framlengja þurfti því til að útkljá það hvort liðanna færi í undanúrslitin.

Í framlengingunni voru Spánverjar umtalsvert sterkari aðilinn. Gerard Moreno fékk tvö dauðafæri til að skora, í því fyrra skaut hann framhjá af markteig eftir fyrirgjöf Jordi Alba, og því síðara fékk hann háa sendingu inn fyrir en lét Yann Sommer verja frá sér skoppandi boltann af stuttu færi. 1-1 var staðan enn í hálfleik framlengingar.

Færin voru ekki eins mörg í síðari hálfleiknum. Spánverjar lágu á þeim svissnesku allan tímann en tókst ekki að koma inn marki. Því þurfti til vítaspyrnukeppni.

Mario Gavranovic kom Sviss þar 1-0 yfir eftir að Sergio Busquets hafði skotið í stöng úr fyrstu spyrnunni. Eftir það skoruðu Svisslendingarnir hins vegar ekki meir. Unai Simón varði frá bæði Manuel Akanji og Fabian Schar áður en Ruben Vargas skaut yfir. Rodri, leikmaður Manchester City sem kom sérstaklega inn til að taka víti, lét Yann Sommer verja frá í þriðju spyrnu Spánverja en mark Dani Olmo úr annarri spyrnunni, auk þeirra frá Gerard Moreno og svo sigurspyrnu Mikel Oyarzabal tryggðu Spánverjum sigur og sæti í undanúrslitum.

Þar mæta þeir annað hvort Belgum eða Ítölum á Wembley. Leikur þeirra hefst klukkan 19:00 og er í beinni á Stöð 2 EM.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira