Fótbolti

Kroos hættur og mætir ekki á Laugardalsvöll

Sindri Sverrisson skrifar
Toni Kroos hefur ákveðið að láta gott heita með þýska landsliðinu.
Toni Kroos hefur ákveðið að láta gott heita með þýska landsliðinu. EPA-EFE/Frank Augstein

Miðjumaðurinn Toni Kroos hefur tilkynnt að hann sé hættur að spila fyrir þýska landsliðið í fótbolta.

Kroos, sem er 31 árs og leikur með Real Madrid, lék því sína síðustu landsleiki á Evrópumótinu þar sem Þjóðverjar féllu úr leik eftir tap gegn Englandi í 16-liða úrslitum.

Næstu leikir Þýskalands verða undir stjórn nýs þjálfara, Hansi Flick, í september en nú er orðið ljóst að Kroos verður ekki með. Hann mætir því ekki á Laugardalsvöll þegar Ísland og Þýskaland mætast þar 8. september.

Kroos lék 106 landsleiki fyrir Þýskaland og varð heimsmeistari með liðinu árið 2014. Í yfirlýsingu segist hann fyrir löngu hafa ákveðið að EM yrði hans síðasta mót. Hann vilji fyrst og fremst einbeita sér að markmiðum sínum með Real Madrid, en hann vilji líka gefa sjálfum sér frídaga sem hann hafi ekki fengið síðustu ellefu ár sem landsliðsmaður. Hann geti þá notið þeirra með eiginkonu sinni og þremur börnum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×