Körfubolti

Tindastóll fær verðlaunavarnarmann sem tók þátt í nýliðavali NBA

Sindri Sverrisson skrifar
Javon Bess í liðsmyndatöku New Orleans Pelicans haustið 2019. Hann náði þó aldrei að leika fyrir liðið, nema tvo leiki á undirbúningstímabilinu, en lék eina leiktíð með venslaliði þess.
Javon Bess í liðsmyndatöku New Orleans Pelicans haustið 2019. Hann náði þó aldrei að leika fyrir liðið, nema tvo leiki á undirbúningstímabilinu, en lék eina leiktíð með venslaliði þess. Getty/Chris Graythen

Tindastóll heldur áfram að styrkja lið sitt fyrir næstu körfuboltaleiktíð eftir vonbrigðaniðurstöðu á síðustu leiktíð þar sem liðinu var sópað út af Keflavík í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Tindastóll hefur nú samið við hinn 25 ára gamla Bandaríkjamann Javon Bess. Áður hafði félagið tryggt sér krafta íslensku landsliðsmannanna Sigtryggs Arnars Björnssonar og Sigurðar Gunnars Þorsteinssonar, sem og írska landsliðsmannsins Taiwo Badmus.

Bess er tæplega tveggja metra framherji sem lék með St. Louis í Atlantic 10 riðlinum í efstu deild bandaríska háskólakörfuboltans. Hann var meðal annars valinn besti varnarmaður riðilsins fyrir tveimur árum.

Eftir útskrift bauð Bess sig fram í nýliðavali NBA en var ekki valinn. Hann skrifaði hins vegar í kjölfarið undir samning hjá New Orleans Pelicans en var látinn fara skömmu síðar.

Tímabilið 2019-20 lék hann því með Erie Bayhawks, tengslaliði Pelicans, í NBA G-deildinni svokölluðu sem er eins konar þróunardeild fyrir NBA-deildina. Þar skoraði hann 6,9 stig að meðaltali í leik, tók 2,7 fráköst og gaf 1,5 stoðsendingu.


Domino's-deildirnar í körfubolta eru á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. Domino's-deildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland sem kostar 3.990 krónur á mánuði en einnig má kaupa útsendingar sem stakan viðburð á 990 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×