Viðskipti innlent

Arftaki Camillu fær loksins nafn

Árni Sæberg skrifar
Viðar Snær Garðarsson vaktstjóri í Bíó Paradís afhendir Sigríði Dagbjartsdóttur verðlaun fyrir vinningstillöguna.
Viðar Snær Garðarsson vaktstjóri í Bíó Paradís afhendir Sigríði Dagbjartsdóttur verðlaun fyrir vinningstillöguna. Bíó paradís

Langþráður draumur aðstandenda Bíó Paradísar um að eignast nýja poppvél rættist á dögunum. En til að nefna gripinn var brugðið til þess ráðs að leita til almennings eftir nafni. Vinningstillagan var hið hljómfagra nafn Maísól Camilludóttir.

Poppvélin Camilla poppaði fyrir gesti Bíó Paradísar frá árinu 1998 allt þar til hún poppaði sinn síðasta poppskammt í fyrra.

Aðstandendur Bíó Paradísar óskuðu eftir tillögum að nafni á nýju poppvélina á samfélagsmiðlinum Facebook. Alls bárust hátt í sexhundruð tillögur og eftir mikla yfirlegu varð nafnið Maísól Camilludóttir fyrir valinu.

Sigríður Dagbjartsdóttir átti vinningstillöguna en hún fékk að launum gjafabréf í Bíó Paradís fyrir tvo ásamt poppi og bjór eða vínglasi. Aðspurð að tilurð nafngiftarinnar sagði hún að henni hefði dottið þetta strax í hug þegar hún hugsaði um poppmaís. „Þetta var bókstaflega það fyrsta sem ég hugsaði,“ sagði Sigríður þegar hún kom að sækja vinninginn í Bíó Paradís.

Aðstandendur Bíó Paradísar þakka frábærar tillögur að nöfnum fyrir poppvélina, og hvetja alla til að koma sem fyrst í paradís til að sjá Maísól í „aksjón.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×