Handbolti

Alfreð valdi sautján í ólympíuhóp en saknar öflugs tvíeykis

Sindri Sverrisson skrifar
Alfreð Gíslason er á leið með sína menn til Tókýó eftir tvær vikur.
Alfreð Gíslason er á leið með sína menn til Tókýó eftir tvær vikur. EPA/Khaled Elfiqi

Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfari Þýskalands í handbolta, hefur valið 17 leikmenn til æfinga og undirbúnings fyrir Ólympíuleikana sem hefjast í Tókýó í næsta mánuði.

Þýska liðið þarf að spjara sig án línumannsins sterka Patrick Wiencek og örvhentu skyttunnar Fabian Wiede en báðir voru í bronsliði Dags Sigurðssonar á síðustu Ólympíuleikum:

„Þetta er mikill missir fyrir liðið. Það eina í stöðunni er að taka á því með raunsæjum hætti,“ sagði Alfreð sem þarf svo að fækka enn í hópnum fyrir leikana. Fjórtán mega vera í hópi í hverjum leik.

Þýski hópurinn mun koma saman í Herzogenaurach í Þýskalandi og æfa þar. Liðið spilar svo tvo leiki í Nürnberg, gegn Brasilíu 9. júlí og Egyptalandi 11. júlí, áður en haldið verður af stað til Japans 14. júlí.

Fyrsti leikur Þjóðverja á leikunum er við Spán 24. júlí en Alfreð og hans menn eru einnig í riðli með Argentínu, Frakklandi, Noregi og Brasilíu.

Sautján manna hópur Alfreðs

Markmenn: Andreas Wolff (Vive Kielce í Póllandi), Silvio Heinevetter (Melsungen), Johannes Bitter (Hamburg)

Vinstra horn: Marcel Schiller (Göppingen), Uwe Gensheimer (Rhein-Neckar Löwen)

Vinstri skyttur: Julius Kühn (Melsungen), Paul Drux (Füchse Berlin)

Leikstjórnendur: Philipp Weber (Magdeburg), Juri Knorr (Rhein-Neckar Löwen)

Hægri skyttur: Kai Häfner (Melsungen), Steffen Weinhold (Kiel)

Hægra horn: Tobias Reichmann (Melsungen), Timo Kastening (Melsungen)

Línumenn: Johannes Golla (Flensburg), Hendrik Pekeler (Kiel), Jannik Kohlbacher (Rhein-Neckar Löwen)

Varnarmaður: Finn Lemke (Melsungen)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×