Fótbolti

Sjáðu martraðarmínútu Hollands: „Töpuðum leiknum út af því sem ég gerði“

Sindri Sverrisson skrifar
Matthijs de Ligt sló boltann um leið og hann féll við í baráttu við Patrick Schick.
Matthijs de Ligt sló boltann um leið og hann féll við í baráttu við Patrick Schick. EPA/Tibor Illyes

„Þetta atvik breytti leiknum og ég ber ábyrgðina,“ sagði Matthijs de Ligt, varnarmaður Hollands, um það þegar hann fékk rautt spjald í 2-0 tapinu gegn Tékklandi á EM í gær. Atvikið má nú sjá á Vísi.

De Ligt fékk rautt spjald á 55. mínútu, fyrir að slá boltann eftir að hafa runnið til í baráttu við Patrick Schick sem hefði getað komist einn gegn markverði. 

Nokkrum sekúndum áður hafði Donyell Malen klúðrað dauðafæri fyrir Hollendinga, aleinn gegn markverði, eins og sjá má í myndbandinu hér að neðan.

Klippa: De Ligt fékk rautt spjald eftir dauðafæri Hollands

Staðan var markalaus í leiknum þegar þetta gerðist en Tékkar komust svo yfir með marki Tomás Holes á 68. mínútu og Schick bætti við öðru á 80. mínútu. Tékkar mæta því Dönum í átta liða úrslitum en Hollendingar eru úr leik.

„Við töpuðum leiknum út af því sem ég gerði,“ sagði hinn 21 árs gamli De Ligt við hollenska fjölmiðla eftir tapið.

„Auðvitað líður manni illa. Eftir á að hyggja hefði ég aldrei átt að leyfa boltanum að skoppa. Ég var með stjórn á þessu. Boltinn kom og ég leyfði honum að skoppa. Ég féll til jarðar og mér var ýtt, sem varð til þess að ég notaði hendurnar,“ sagði De Ligt.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×