Makamál

57 ára á OnlyFans: „Ég sýni erótískar hreyfingar en ekki kynlíf“

Ása Ninna Pétursdóttir skrifar
Hún er 57 ára gömul og lýsir sér sem rólegri, miðaldra íslenskri konu. Hún kallar sig Your Silver Siren og er ein af þeim íslensku konum sem birta og selja aðgang að erótísku efni á síðunni OnlyFans. 
Hún er 57 ára gömul og lýsir sér sem rólegri, miðaldra íslenskri konu. Hún kallar sig Your Silver Siren og er ein af þeim íslensku konum sem birta og selja aðgang að erótísku efni á síðunni OnlyFans.  Elín Björg

„Reyndar hefði ég ekki gert þetta þegar ég var ung kona. Ég hefði ekki þorað því vegna hræðslu við umtal, útskúfun og fleira í þeim dúr, þó að mig hefði langað til þess.“ Segir 57 ára gömul kona sem kallar sig Your Silver Siren, en hún er ein af þeim íslensku konum sem birta erótískt efni á síðunni OnlyFans.

Til styttingar í viðtalinu verður notast við nafnið Silver. 

Sýnir andlit en vill ekki gefa upp eigið nafn

„Ég sýni andlitið á mér á OnlyFans og Instagram en ég kem ekki fram undir eigin nafni. Mér var ráðlagt að varast það, öryggisins vegna. Ég segi fylgjendum mínum til dæmis ekki í hvaða landi ég bý, bara að ég búi á Norðurlöndum en fylgjendur mínir eru næstum eingöngu erlendir.“

Your Silver Siren er virkur þátttakandi í ýmsum jaðarlistahópum hérlendis. Elín Björg

Nafnið Your Silver Siren segir hún vera listamannanafn sitt en Silver er virkur þátttakandi í jaðarlistahópum eins og dragi, sirkus, kabarett, burlesque og sideshow. 

Hún er vel menntuð með meistaragráðu frá Háskóla Íslands og starfar sem einkakennari, þýðandi og er einnig í hlutastarfi í verslun.

Alger mýta að fólk vilji bara sjá ungar konur

Hvernig kom það til að þú ákvaðst að prófa að fara á OnlyFans?

„Ég fór í Boudoir myndatöku hjá Elínu Björgu ljósmyndara og þegar ég sá hvað myndirnar voru vel heppnaðar og margir hrifnir af þeim, fór ég að spá í því hvort ég gæti mögulega haft eitthvað upp úr því að sýna svona flottar, munúðarfullar myndir af konu á mínum aldri.“

Það er nefnilega alger mýta að fólk hafi bara áhuga á að sjá ungar, kynþokkafullar konur. Ég er „genetískt“ heppin að vera með unglega húð og hárið er dálítið vörumerki mitt – það er alveg hvítt. Nafnið Your Silver Siren vísar í silfraða hárið.

Silver segir að í fortíðinni hafi hún alls ekki alltaf hafa verið sátt við líkama sinn en sé í dag mjög sátt í eigin skinni og fagnar hún því að upplifa sinn eigin kynþokka. 

„Mig langar að hvetja eldra fólk til að vera flottar kynverur – fyrir sjálft sig. Það er mjög valdeflandi og frábært fyrir sjálfsmyndina að upplifa sig kynþokkafullan.“

Hræðist hvorki umtal né álit fólks

Hvar heyrðir þú fyrst af síðunni OnlyFans?

„Ég man það hreinlega ekki. Ég er mikið inni í þessum jaðarlistahópum og hef í gegnum tíðina hitt konur sem eru á OnlyFans og síðunni Patreon. Sumar eru með myndir og myndbönd, þar sem nakinn líkami er hluti af listaverki. Aðrar eru með gróf kynlífsmyndbönd og svo er allt þar á milli."

Sjálf segist Silver vera algjör byrjandi á síðunni og sé því enn að fóta sig áfram en Silver byrjaði á OnlyFans í mars á þessu ári. 

Efaðist þú einhvern tíma um þá ákvörðun að stíga þetta skref?

Ég hugsaði mig um í hálft ár, aðallega af því að ég var meðvituð um að þetta væri mikil vinna fyrir manneskju sem væri ekki með hóp af fylgjendum fyrir á einhverjum samfélagsmiðli. Ekki vegna þess að ég hræddist umtal eða álit fólks.

Bæði á Instagram síðu sinni og OnlyFans síðunni sýnir Silver andlit sitt og segir hún ástæðuna vera að andlitið sé svo stór og mikilvægur partur af erótíkinni.

„Með svipbrigðum má gefa svo rosalega margt í skyn. Ég valdi samt að sýna ekki myndir með andliti í þessu viðtali, til að halda smá fjarlægð. Auðvitað geta þeir sem ákveða að skoða mig á Instagram eða þeir sem gerast áskrifendur á OnlyFans séð andlitið mitt. Þannig að kannski er sú ákvörðun ekki beint varúðarráðstöfun heldur frekar ég að reyna að halda í smá dulúð.“

Silver segir það vera persónubundið hvað fólk skilgreini sem erótík annars vegar og klám hins vegar.Elín Björg

Sýnir erótískar myndir en ekki kynlíf

Hvernig efni ertu að birta á miðlunum þínum?

„Kynþokkafullar myndir og myndbönd. Ég myndi kalla efnið mitt erótískt án þess að vera klámfengið. Svo er það mjög persónubundið hvað fólki finnst vera erótík annars vegar og klám hins vegar. Ég sýni ber brjóst en ekki kynfæri.

 Ég sýni erótískar hreyfingar en ekki kynlíf. Mér finnst gaman að gefa mikið í skyn án þess að sýna mikið. Daðra, leika mér, stríða og ögra. Mögulega breytast áherslur mínar síðar – hver veit.

Silver skilgreinir sig sem gagnkynhneigða og er hún einhleyp um þessar mundir og hefur verið um nokkurt skeið.

„Ef ég myndi hitta mann sem hefði áhuga á mér og sem mér litist á, yrði hann að vera sáttur við það sem ég er að gera. Reyndar myndi mér eflaust ekkert lítast á hann ef honum fyndist eitthvað að þessu,“ segir hún og hlær.

Eldri karlmenn óttalegar risaeðlur

Hún segir þá karlmenn sem hún hefur hitt á Tinder og á stefnumótum ekki enn hafa náð að heilla hana og viðurkennir Silver að hún sé mögulega svolítið vandfýsin.

En ég kýs að líta svo á að líf mitt sé ljómandi gott og að karlmaður sem kæmi inn í það yrði að auðga það enn frekar. Ég er mikið í kringum mér yngra fólki og mér finnst karlar á mínum aldri sumir vera óttalegar risaeðlur.

„Auðvitað eru samt til frábærir karlmenn á mínum aldri – og þeir eiga flestir frábærar konur. Þeir sem eru á lausu, hafa annað hvort ekki orðið á vegi mínum eða ekki haft smekk fyrir mér. Og ég er auðvitað ekki allra.“

Hvernig er reynslan þín af fylgjendum þínum? Ertu með fasta fylgjendatölu eða er hún rokkandi?

„Hún rokkar svolítið. Ég er ekki með marga fylgjendur á OnlyFans enn sem komið er. Talan hækkar hins vegar daglega á Instagram, sem er helsta auglýsingatækið mitt. Þetta er mikið langhlaup fyrir manneskju sem byrjar án fylgjendagrunns á samfélagsmiðlum. Ég er enn sem komið er bara á Instagram en ég er að setja mig inn í síðuna TikTok.“

Silver segist hafa fullan skilnining á misjöfnum skoðunum fólks á OnlyFans en sjálf umgengst hún mest fólk sem er annað hvort hlutlaust eða jákvætt gagnvart síðunni. Elín Björg

Fullan skilning á misjöfnum skoðunum á OnlyFans

Hvernig finnst þér viðhorf samfélagsins vera til kvenna sem eru á OnlyFans?

„Ég umgengst að mestu fólk sem er annað hvort hlutlaust eða nokkuð jákvætt gagnvart OnlyFans. Að sjálfsögðu heyri ég hinar raddirnar líka og ég hef fullan skilning á því að fólk hafi misjafnar skoðanir á þessu.“

Það er helst að ég heyri fólk hnussa yfir ungum konum sem eru að selja kynlífsmyndbönd – að þær muni nú örugglega sjá eftir þessu síðar. Ég er nú komin á þann aldur að það skiptir engu máli.

„Reyndar hefði ég ekki gert þetta þegar ég var ung kona. Ég hefði ekki þorað því vegna hræðslu við umtal, útskúfun og fleira í þeim dúr, þó að mig hefði langað til þess. Viðhorf, bæði almennt og mitt eigið, var allt öðruvísi.“

Sjálf segist Silver nú vera miklu umburðarlyndari en áður og finnst fólk almennt vera orðið umburðarlyndara gagnvart fjölbreytileikanum.  

„Kannski er það bara að ég vel mér hverja ég umgengst núna, og ég vel að vera innan um fólk sem tekur mér og öðrum eins og við erum.“

Fær einstaka sinnum ruddalega skilaboð

Hefur þú sjálf kynnst eða hitt menn í gegnum OnlyFans?

„Nei, þetta er vinna, ekki vina- eða kærastaleit. Ég hef fengið tilboð frá mönnum sem vilja gerast vinir mínir eða spjalla persónulega en ég afþakka slíkt kurteisislega og útskýri að þetta sé vinnan mín. Þeir taka því alltaf vel og sýna því skilning.“

Ég fæ líka stundum ruddaleg skilaboð, þótt það sé ekki algengt. Ég svara alltaf og er bara frekar hvöss. Spyr hvað það eigi að þýða að tala svona við mig!

„Flestir fara í algera kleinu og biðjast margfaldlega afsökunar en sumir halda áfram að dónast. Þetta er eingöngu á Instagram, ekki á OnlyFans, og þá blokkera ég bara viðkomandi og missi engan svefn yfir því.“

Veistu á hvaða aldursbili fylgjendurnir þínir eru?

„Ég sé yfirleitt ekki aldur þeirra sem fylgja mér en sumir hafa sagt mér hversu gamlir þeir séu. Eftir því sem ég best veit er sá yngsti nítján ára og sá elsti yfir sjötugt. Eins og ég sagði áður, eru þetta næstum eingöngu erlendir karlmenn. Ég held að einn sé íslenskur.

Ég hefði ekkert á móti því að fá fleiri íslenska fylgjendur, bæði karla og konur. Þótt ég sé gagnkynhneigð, er kynorka og kynþokki ekki bundin við kyn. Mér geta þótt konur mjög kynþokkafullar, þótt ég hafi ekki verið með konu og ég veit af reynslu að mörgum sam- og tvíkynhneigðum konum finnst ég flott.
Kynorka og kynþokki er að mati Silver ekki bundið við kyn og óskar hún sér að fá fleiri fylgjendur á síðuna sína, bæði konur og karla. Elín Björg

Segir vini og fjölskyldu dást að hugrekkinu 

Hvernig hafa vinir þínir tekið því að þú sért inni á þessari síðu?

„Bæði vinir og fjölskylda hafa tekið þessu mjög vel. Mögulega finnst einhverjum þeirra óttaleg vitleysa í mér en þeir halda því þá fyrir sig.“

Ég hef alltaf farið ótroðnar slóðir án þess að vera í neinu rugli. Margar vinkonur og frænkur hafa lýst því yfir að þær dáist að hugrekkinu í mér.

Silver segist strax hafa gert sér grein fyrir því hvað þetta væri mikil vinna en það hafi þó komið henni á óvart í hverju mesta vinnan fælist.

„Ég þarf að taka myndir og myndbönd mjög reglulega og ég er sko ekki sú besta í því. Það krefst aga fyrir mig, sem mála mig ekki dags daglega og er bara í gallabuxum og bol. Það að setja á mig spariandlit, greiða mér flott, velja kynþokkafull föt, setja upp „leikmynd“ og taka myndir og myndbönd.“

Silver setur daglega inn efni bæði á OnlyFans og Instagram og því sé hún með augun opin fyrir flottum fötum og fylgihlutum til að nota á myndunum.

„Myndirnar þarf oft að „ritskoða“ fyrir Instagram. Ég þarf að passa að setja hjörtu eða blóm yfir geirvörtur, svo mér verði ekki hent þaðan út. Ég eyði líka tíma í að skoða hvað aðrar konur eru að gera og reyni að læra af þeim. 

Gerir sér ekki grillur um að verða rík á OnlyFans

„Stundum set ég eitthvað inn sem ég held að muni slá í gegn, sem fær svo varla nein viðbrögð. Svo getur eitthvað sem mér finnst bara sæmilegt fengið mikla athygli. Þetta er allt mjög brött lærdómskúrva fyrir mig.“

Gæti þetta starf orðið aðaltekjulindin þín eða aðalstarf?

„Nei, ég þori nú ekki að segja upp dagvinnunni enn. Ég geri mér engar grillur um að verða rík á þessu en vonast til að hafa af þessu smá aukatekjur með tíð og tíma.“

Hversu mikil áhrif hefur OnlyFans á persónulega líf þitt?

„Hversdagslíf mitt snýst um allt aðra hluti. Engum sem hittir mig (og þekkir mig ekki) myndi detta í hug að tengja mig við þetta hliðarsjálf mitt. Ég er mjög venjuleg í útliti, pæli lítið í fötunum sem ég er í dagsdaglega, mála mig næstum aldrei, fer aldrei á djammið. Ég ræð krossgátur, les, sauma, prjóna og horfi á Netflix.“

Ég er bara mjög róleg, miðaldra kona.

..segir Silver að lokum. 


Þeir sem hafa ábendingar um skemmtilegt umfjöllunarefni eða áhugaverða viðmælendur er bent á að senda póst á netfangið makamal@syn.is 


Tengdar fréttir

Boudoir: „Ekki fela það sem þú ert“

„Það er rosalegur munur á nektarmyndum og því sem kallast boudoir myndir. Gjörólík hugtök, en fólk á það til að rugla þeim saman. Nektarmyndir geta oft tíðum verið listrænar myndir með áherslu á líkamann en boudoir eru feminískar myndir með áherslu á konuna sjálfa.“ Þetta segir Elín Björg Guðmundsdóttir ljósmyndari í viðtali við Makamál.

„Ég vil láta binda mig“

„Ég hef vitað það frá unga aldri að ég hneigðist til BDSM og bindinga en eins og svo margir þá vissi ég ekki alveg hverju ég væri að leita eftir“.

„Ég neita að skammast mín fyrir það hver ég er í dag“

„Ég hafði tekið kynhneigð mína til endurskoðunar nokkrum sinnum en þar sem þekking á því hvað kynhneigð er og hvernig hún virkar var ekki næg þá fann ég aldrei neitt út úr því.“ Þetta segir Brynjar í viðtali við Makamál um reynslu sína af BDSM. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×