Fótbolti

Ed Sheeran hélt tónleika fyrir enska landsliðið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ed Sheeran er einn vinsælasti tónlistarmaður heims. Hér sést hann á tónleikum á Laugardalsvelli 2019.
Ed Sheeran er einn vinsælasti tónlistarmaður heims. Hér sést hann á tónleikum á Laugardalsvelli 2019. vísir/Vilhelm

Undirbúningur enska landsliðsins fyrir leikinn gegn Þýskalandi í sextán liða úrslitum EM hófst á óhefðbundinn hátt, með tónleikum Eds Sheeran.

Á miðvikudaginn fékk Sheeran að koma inn í búbblu enska landsliðsins og hélt litla útitónleika fyrir það í St. George's Park.

„Þetta spurðist fljótt út,“ sagði Jordan Henderson er hann var spurður út í tónleikana á blaðamannafundi.

„Hann er toppmaður, frábær náungi og allir vita hversu góður tónlistarmaður hann er. Það var frábært að fá hann til að spila nokkur lög. Þetta var góður dagur. Andrúmsloftið var afslappað, við grilluðum og hann lék nokkur lög.“

Englendingar unnu D-riðil Evrópumótsins án þess að fá á sig mark. Í sextán liða úrslitunum mæta þeir sínum fornu fjendum, Þjóðverjum, sem enduðu í 2. sæti F-riðils.

Leikur Englands og Þýskalands fer fram á Wembley, þar sem enska liðið hefur leikið alla sína leiki, á þriðjudaginn.

England og Þýskaland mættust síðast á stórmóti í sextán liða úrslitum HM 2010 þar sem Þjóðverjar unnu 4-1 sigur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×