Lífið

Hrika­legt á­fall að missa pabba sinn

Óttar Kolbeinsson Proppé skrifar
Björgvin Franz Gíslason ræddi meðal annars föðurmissinn í Harmageddon í dag.
Björgvin Franz Gíslason ræddi meðal annars föðurmissinn í Harmageddon í dag. vísir

Björg­vin Franz Gísla­son segir að fólk verði að leita sér hjálpar til að vinna úr sorginni eftir missi ást­vina. Hann segir það hafa verið hrika­legt á­fall að missa föður sinn Gísla Rúnar Jóns­son, sem svipti sig lífi síðasta sumar.

„Ég vissi alveg að hann var orðinn það veikur að maður bjóst alveg við því að hann myndi deyja, bara þú veist, kannski fá hjarta­á­fall eða heila­blóð­fall eða eitt­hvað, því hann hugsaði ekki vel um sig,“ sagði Björg­vin sem var gestur í Harma­gedd­on í dag.

„En þetta var ekki það sem ég bjóst við. Bara alls ekki.“

Tæpt ár er síðan Gísli Rúnar lést og segir Björg­vin að fjöl­skyldan sé enn að vinna úr á­fallinu, sem hafi verið hræði­legt.

„Þetta er búið að vera erfitt fyrir mig og við náttúru­lega höfum öll bara þurft að vinna úr þessu svo­lítið á okkar hátt.“ Hann segir að fjöl­skyldan hafi fyrst unnið mikið úr á­fallinu í sam­einingu en hafi með tímanum geta farið að vinna úr því hvert á sinn hátt.

„Svona harm­leikur, eins ömur­legt og það er, færir fjöl­skyldur oft miklu nær saman,“ segir hann. „Í okkar til­felli vorum við bara ofsa­lega heppin að það varð úr.“

Hann segir á­fallið þá ekki síst hafa verið mikið því það hafi verið svo opin­bert og fyrir allra augum svo að segja því fjöl­miðlar fjölluðu um það. „Hann var nánast ný­dáinn þegar ég fór að fá sím­töl. En allir rosa­lega stuðnings­ríkir og allir til staðar. Og það er náttúru­lega bara ó­trú­legt, því­líkur og annar eins kær­leikur og stuðningur – ég hef bara aldrei vitað annað eins.“

Spurður hvort hann eigi ráð fyrir þá sem hafa misst ást­vini sína mælir hann með að fólk nýti sér alla þá að­stoð sem er í boði, til dæmis hjá Sorgar­mið­stöðinni eða Pieta­sam­tökunum.

„Og bara leita þér hjálpar. Ekki halda að þú ætlir að fara að gera þetta eitt­hvað einn úti í horni. Þú gerir þetta bara með fólki, þú verður að fá þennan stuðning,“ segir hann og í­trekar að það þurfi ekki endi­lega að ræða svona á­föll mjög opin­skátt frekar en fólk vilji en það sé alltaf gott að ræða þau við ein­hvern, þó þeir séu ekki nema einn eða tveir í kring um mann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.