Bíó og sjónvarp

Lively í hart: „Þú veist að við getum grafið hvern sem er“

Samúel Karl Ólason skrifar
Blake Livel segist vonast til að varpa ljósi á aðferðir sem notaðar eru til að þakka í fólki sem lætur heyra í sér og hjálpa öðrum sem gætu orðið skotmörk sambærilegra herferða.
Blake Livel segist vonast til að varpa ljósi á aðferðir sem notaðar eru til að þakka í fólki sem lætur heyra í sér og hjálpa öðrum sem gætu orðið skotmörk sambærilegra herferða. AP/Scott A Garfitt

Blake Lively, leikkona, hefur sakað Justin Baldoni, leikstjóra myndarinnar It ends with us og mótleikara hennar í myndinni, um kynferðislegt áreiti og áróðursherferð í þeim tilgangi að rústa orðspori hennar. Lively hefur lagt fram kvörtun gegn Baldoni, í undirbúningi fyrir lögsókn.

Kvörtunin beinist samkvæmt blaðamönnum AP fréttaveitunnar sem hafa komið höndum yfir hana, að Baldoni, framleiðslufyrirtæki It ends with us og kynningarfulltrúa Baldoni.

Lively sakar Baldoni og framleiðslufyrirtækið um umfangsmikla áróðursherferð gegn henni, eftir að hún og Ryan Reynolds, eiginmaður hennar, tjáðu sig við forsvarsmenn myndarinnar um hið meinta áreiti og varhugaverða hegðun Baldoni og Jamey Heath, eins framleiðanda kvikmyndarinnar.

Þessi herferð er sögð hafa meðal annars snúist um að dreifa ásökunum gegn henni á samfélagsmiðlum og sverta ímynd hennar á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum. Lively segir markmiðið hafa verið að grafa undan trúverðugleika hennar og rústa orðspori hennar, ef ske kynni að hún myndi gera ásakanir sínar opinberar.

Samhliða því að grafa undan Lively, er herferðin sögð hafa snúist um að auka trúverðugleika Baldoni.

Blaðamenn New York Times hafa eining komið höndum yfir skilaboð milli fólksins sem sagt er hafa tekið þátt í þessari herferð. Í einu tilfelli sendir kynningarfulltrúi Baldoni og framleiðslufyrirtækisins skilaboð til krísustjórnanda sem í stóð að „hann“ vildi að hægt væri að grafa „hana“.

„Þú veist að við getum grafið hvern sem er,“ svaraði Melissa Nathan, áðurnefndur krísustjórnandi.

Á einum tímapunkti sendi Baldoni hlekk á samfélagsmiðlafærslu þar sem fræg manneskja var sökuð um fautaskap en sú færsla hafði fengið um nítján milljónir áhorfa.

„Þetta er það sem við þurfum.“

Krísustjórnandinn lagði skömmu síðar fram tillögu um „órekjanlega“ herferð gegnum verktaka á samfélagsmiðlum.

Samþykktu að hætta að ræða kynlíf og klám á tökustað

Í yfirlýsingu til New York Times segist Lively vonast til þess að lögsókn hennar muni varpa ljósi á þessar aðferðir sem notaðar séu til að skaða fólk sem lætur heyra í sér og hjálpa öðrum sem gætu orðið skotmörk sambærilegra herferða.

Í samtali við AP segir lögmaður Baldoni að ásakanir Lively séu innihaldslausar og svívirðilegar. Þá segir hann enga herferð hafa verið setta á laggirnar til að grafa undan Lively. Þess í stað hafi kynningarfulltrúi og krísustjórnandi verið ráðinn vegna margra krafna og hótana leikkonunnar við framleiðslu kvikmyndarinnar.

Meðal annars hafi hún hótað að taka ekki þátt í kynningarstarfinu fyrir frumsýningu It ends with us.

Í kvörtun Lively kemur fram að hún, Baldoni og aðrir sem að kvikmyndinni komu hafi á fundi samþykkt að framfylgja ákveðnum reglum þegar taka þurfti upp fleiri atriði fyrir myndina í aðdraganda útgáfu hennar.

Þær kröfur hafi meðal annars falið í sér að ekki mætti sýna fleiri myndir og myndbönd af nöktum konum á tökustað og ekki mætti lengur tala um kynlíf, klám eða kynfæri.

Einnig hafi Baldoni samþykkt að tala ekki við einkaþjálfara leikkonunnar um þyngd hennar, né spyrja hana um trú hennar eða tala um látinn föður hennar.

Baldoni mun einnig hafa verið meinað að ganga inn í hjólhýsi hennar á tökustað eða fara í förðunarherbergið meðan hún var þar fáklædd.

Justin Baldoni, leikstjóri og annar aðalleikara It ends with us.AP/Evan Agostini

Heiðaður fyrir baráttu fyrir hönd kvenna

Eftir að It ends with us kom út varð Lively fyrir fjölda högga gegn orðspori hennar. Gömul ummæli hennar voru dregin fram og hún sökuð um að vera ófagmannleg, erfið í samvinnu og fauti svo eitthvað sé nefnt.

NYT segir orðspor hennar hafa orðið fyrir skemmdum, ef svo má segja, en slíkt hafi ekki komið fyrir Baldoni. Hann hafi til að mynda heiðraður fyrr í þessum mánuði á viðburði þar sem menn sem standa við bak kvenna, berjast gegn kynbundnu ofbeldi og ýta undir jafnrétti voru heiðraðir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.